Handbolti

Haukar sigurstranglegri í úrslitunum: „Titlar vinnast á vörn og markvörslu“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Haukar eru búnir að vinna Selfyssinga tvisvar sinnum í vetur.
Haukar eru búnir að vinna Selfyssinga tvisvar sinnum í vetur. vísir/vilhelm
Úrslitaeinvígi Hauka og Selfoss um Íslandsmeistsratitilinn hefst á morgun, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki verður Íslandsmeistari. Gunnar Berg Viktorsson einn af sérfræðingum Seinni Bylgjunnar segir Hauka sigurstranglegri í baráttunni um titilinn sem þeir unnu síðast 2016.

Selfoss sópaði Val úr keppni í undanúrslitum en Haukar þurftu oddaleik til þess að slá út ÍBV. Haukar unnu báða leiki liðanna í deildinni í vetur.

„Þetta verður spennandi, en Haukarnir eru með frábært varnarlið og góðan markmann,“ sagði Gunnar Berg í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það verður erfitt fyrir Haukana að stoppa Elvar og Hauk, ef þeir eru á sínum degi þá eru þeir með þeim bestu á landinu.“

„Það segir sig sjálft að svona titlar vinnast á vörnum og markvörslu og Haukarnir eru með massíva vörn. En það er hins vegar ekkert útilokað því Valsararnir voru með bestu vörnina þar til þeir spiluðu við Selfoss.“

Fyrsti úrslitaleikurinn fer fram í Schenkerhöllinni að Ásvöllum annað kvöld. Leikurinn hefst 18:30 og hefur Seinni bylgjan upphitun á Stöð 2 Sport klukkan 17:45.



Klippa: Úrslitaeinvígi Hauka og Selfoss um Íslandsmeistsratitilinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×