Handbolti

Oddur og félagar gulltryggðu efsta sætið með glæsibrag

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Oddur Gretarsson leikur í Bundesligunni á næstu leiktíð
Oddur Gretarsson leikur í Bundesligunni á næstu leiktíð Balingen
Oddur Gretarsson og félagar í Balingen höfnuðu í 1.sæti þýsku B-deildarinnar í handbolta en lokaumferðin fór fram í dag þar sem Balingen heimsótti Grosswallstadt.

Það var ekki ýkja mikið undir hjá Oddi og félögum í dag enda voru þeir búnir að tryggja sér farseðil í þýsku Bundesliguna áður en kom að lokaumferðinni.

Þeir áttu þó á hættu að missa toppsætið í hendur Nordhorn en til þess kom ekki þar sem Balingen vann öruggan tíu marka sigur, 21-31, eftir að hafa leitt með sjö mörkum í leikhléi, 8-15.

Oddur skoraði tvö mörk í leiknum en hann var langmarkahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu með 209 mörk. Næsti maður á eftir honum Gregor Thomann með 108 mörk. Oddur hafnaði í 6.sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar í vetur en markahæstur var Michael Spatz sem skoraði 254 mörk fyrir Grosswallstadt.

Oddur er 29 ára gamall en hann hefur leikið í Þýskalandi frá árinu 2013. Hann lék með Akureyri Handboltafélagi og Þór Akureyri hér á landi áður en hann hélt í atvinnumennsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×