Skoðun

Tímasóun

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
Karoshi er þekkt fyrirbæri í Japan þar sem fólk deyr skyndilega eftir að ofkeyra sig í vinnu. Dánarorsök er venjulega hjartaáfall eða heilablóðfall af völdum streitu. Stundum sjálfsvíg.

Í vikunni var greint frá íslenskri rannsókn þar sem kom í ljós að unglingar eru svefnvana, þreyttir og undir of miklu álagi. Íþróttir eru seint að kvöldi, skjánotkun eftirlitslaus og þeir telja sig vera að sóa tíma sé ekki nóg fyrir stafni haft. Þetta er ekki fyrsta rannsóknin sem sýnir að börnin okkar eru á hraðri leið inn í heim streitu og vanlíðanar.

Leið til betri vegar er í sjónmáli. Þau nefna dæmi eins og að hafa íþróttaiðkun fyrr á daginn. Það er vel þekkt í svefnvísindum að eitt mikilvægasta svefnráðið er einmitt að stunda líkamsrækt fyrir kvöldmatartíma því æfing seint að kvöldi getur seinkað lífklukkunni og skert svefngæði. Þegar þau segjast vera eftirlitslaus og gleyma sér í símanum eru þau að senda skilaboð um að þau þurfi aðhald. Blátt ljós frá skjáum seint að kvöldi seinkar enn frekar lífklukkunni (sem er þegar seinkuð hjá unglingum) og skerðir svefn.

Hér er gott að minna á orð Ólafs Þórs Ævarssonar geðlæknis hjá Streituskólanum: „Allir upplifa streitu og hún lagast ef maður hvílist. Hvíldin byggir upp heilann og styrkir okkur og ver okkur gegn álaginu.“

Hvaðan ætli börnin okkar fái þá hugmynd að það sé slæmt að vera ekki með mikið skipulag og mikið að gera, það sé sóun á tíma? Þau eiga alla sína ævi fram undan og orðið tímasóun skýtur því skökku við. Við sem foreldrar og samfélag þurfum að finna börnunum betri farveg með svefn og slökun innanborðs.




Skoðun

Sjá meira


×