Fótbolti

Andri Rúnar á förum til fornfrægs félags

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Andri Rúnar virðist vera á förum frá Helsingborg.
Andri Rúnar virðist vera á förum frá Helsingborg. MYND/FACEBOOK-SÍÐA HELSINGBORGAR
Andri Rúnar Bjarnason er á förum frá sænska úrvalsdeildarliðinu Helsingborg til þýska C-deildarliðsins Kaiserslautern. Frá þessu er greint á FotbollDirekt.

Eftir að hafa jafnað markametið í efstu deild á Íslandi 2017 gekk Andri Rúnar í raðir Helsingborg. Hann skoraði 16 mörk þegar liðið vann B-deildina á síðasta tímabili og var markahæsti leikmaður hennar.

Andri Rúnar hefur skorað þrjú mörk í sænsku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili. Helsingborg er í 14. sæti eftir tólf umferðir.

Samningur Andra Rúnars við Helsingborg rennur út eftir tímabilið og svo virðist sem félagið hafi ákveðið að selja hann í stað þess að missa hann frítt í haust.

Kaiserslautern er sögufrægt félag en hefur átt í erfiðleikum undanfarin ár. Kaiserslautern endaði í 9. sæti þýsku C-deildarinnar á síðasta tímabili. Liðið lék síðast í úrvalsdeildinni tímabilið 2011-12.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×