Andhryðjuverkadeild innan indversku lögreglunnar hefur handtekið mann sem talinn er tengjast hryðjuverkaárásunum á Srí Lanka sem framdar voru síðastliðinn Páskadag. Fimm aðrir hafa verið handteknir.
Rannsakendur málsins segja manninn, sem er 32 ára og heitir Mohammad Azharuddin, hafa verið Facebook-vin Zahran Hashim, sem er einn þeirra sem sprengdi sig í loft upp í árásunum með tilheyrandi mannfalli. Hashim er einnig talinn vera heilinn á bak við árásirnar, sem samtökin sem kenna sig við íslamskt ríki, ISIS, hafa lýst yfir ábyrgð á.
258 manns týndu lífi í árásunum og yfir 500 særðust.
Handtakan kemur í kjölfar áhlaupa lögreglunnar á hús sem indverska lögreglan telur hafa verið dvalarstað vígamanna ISIS í indversku borginni Coimbatore. Auk Azharuddin vor fimm aðrir hnepptir í hald lögreglu til yfirheyrslu.
Leyniþjónusta Indlands vinnur nú með lögregluyfirvöldum á svæðinu að húsleit á heimili Azharuddin, auk þess sem leitað er heima hjá þremur af hinum fimm.
Allir eru mennirnir ásakaðir um að hafa „dreift boðskap“ ISIS og að reyna að sannfæra „berskjaldaða unglinga“ um að ganga í raðir samtakanna og fremja hryðjuverkaárásir í suðurhluta Indlands.

