Körfubolti

Lakers galdraði fram pláss undir launaþakinu og getur náð í þriðju súperstjörnuna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James getur brosað eftir atburði gærdagsins.
LeBron James getur brosað eftir atburði gærdagsins. Getty/Harry How
Þeir sem héldu að Los Angeles Lakers væri úr leik í baráttunni um feitustu bitanna á leikmannamarkaði NBA deildarinnar þurfa að endurmeta þá skoðun sína eftir atburði gærdagsins.

Los Angeles Lakers bjó nefnilega til mikið pláss undir launaþakinu þökk sé leikmannaskiptum við Washington Wizards. Í raun komu Wizards menn inn í stóru skiptin við New Orleans Pelicans og úr urðu þriggja liða skipti.  

Rob Pelinka, framkvæmdastjóra Los Angeles Lakers, tókst þar með að losna við samninga þriggja leikmanna. Mo Wagner, Isaac Bonga og Jemerrio Jones fara allir til Washington Wizards.

Í viðbót við það þá gaf Anthony Davis eftir fjórar milljónir dollara sem hann átti að fá ef honum yrði skipt í annað lið. Lakers fær stórstjörnuna Anthony Davis frá New Orleans Pelicans.

Allt þýðir þetta að Los Angeles Lakers er nú komið með tvær súperstjörnur í þeim LeBron James og Anthony Davis en getur jafnframt boðið þriðju súperstjörnunni hámarkssamning.





Draumurinn er eflaust að semja við Kawhi Leonard en það er erfitt að spá fyrir um hvar Kawhi ætli að spila á næstu leiktíð. Aðrir sterkir leikmenn eins og Kyrie Irving, Klay Thompson og Jimmy Butler hafa einnig verið orðaðir við liðið.

Lið með Kawhi, Anthony Davis og LeBron James væri hins vegar líklegt til afreka á næstu leiktíð. Þessar þrjár stórstjörnur ættu líka að geta hjálpað til að fá til félagsins reynda leikmenn sem vilja vinna titilinn og eru tilbúnir að fórna pening til að ná því.





Öll þessi leikmannaskipti Los Angeles Lakers þýða aftur á móti að liðið er bara með þrjá leikmenn á samningi eins og staðan er núna.

Þeir héldu Kyle Kuzma og LeBron James og fengu svo Anthony Davis. Liðið þarf því að semja við marga nýja leikmenn á næstu vikum en til að byrja með mun Lakers reyna að finna aðra súperstjörnu í viðbót við þá LeBron James og Anthony Davis.







NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×