Íslenski boltinn

Fjögurra tíma íslensk fótboltaveisla á Stöð 2 Sport í dag

Anton Ingi Leifsson skrifar
KA og FH mætast í mikilvægum leik norðan heiða í dag.
KA og FH mætast í mikilvægum leik norðan heiða í dag. vísir/bára
Fjórir leikir fara fram í fjórtándu umferð Pepsi Max-deildar karla í dag en einn leikur hefst klukkan 16, einn klukkan 17 og tveir klukkan 19.15.

Umferðin hefst í Grindavík með fallbaráttuslag. Heimamenn fá þá Eyjamenn í heimsókn en Grindavík hefur ekki unnið síðan 20. maí. Eyjamenn unnu síðast 2. júní.

Bæði lið eru í mikilli fallbaráttu. Grindavík er í níunda sæti deildarinnar með fjórtán stig en Eyjamenn eru á botninum með fimm stig. Þeir þurfa nauðsynlega á þremur stigum að halda.

KA og FH mætast á Akureyravelli. Bæði lið hafa verið í vandræðum. Fimleikafélagið er í fimmta sætinu eftir 2-0 skell gegn HK í síðustu umferð og KA er í fallsæti eftir þrettán umferðir.

Íslandsmeistarar Vals eru í sjöunda sæti deildarinnar, þrettán stigum á eftir toppliði KR, en meistararnir heimsækja Skagamenn í dag. Nýliðarnir eru í þriðja sætinu með 22 stig en Valsmenn geta minnkað bilið milli sín og Skagans niður í tvö stig.

Topplið KR fer svo í Árbæinn og mætir Fylkismönnum. KR er með sjö stiga forskot á toppnum en Fylkir er í fimmta sætinu með nítján stig. Leikur liðanna í fyrri umferðinni var dramatískur en leiknum lauk með 1-1 jafntefli.

Á morgun eru svo tveir leikir. Víkingur fær Breiðablik í heimsókn og nýliðar HK freista þess að vinna sinn fjórða leik í röð er Stjarnan mætir í heimsókn. Pepsi Max-mörkin eru á dagskrá annað kvöld klukkan 21.15.

Leikir dagsins:

16.00 Grindavík - ÍBV

17.00 KA - FH (Í beinni á Stöð 2 Sport 2)

19.15 ÍA - Valur (Í beinni á Stöð 2 Sport)

19.15 Fylkir - KR




Fleiri fréttir

Sjá meira


×