Þóra Jónsdóttir skoraði sigurmark Selfyssinga á 102. mínútu. Hún kom inn á sem varamaður skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma.
Þetta var fyrsta mark Þóru í meistaraflokki. Hún valdi sannarlega rétta tímann til að skora það.
KR náði forystunni þegar Gloria Douglas skoraði laglegt mark á 17. mínútu.
Þegar níu mínútur voru til hálfleiks missti Þórunn Helga Jónsdóttir, fyrirliði KR, boltann á miðjum vellinum.
Hólmfríður Magnúsdóttir tók boltann og brunaði í átt að marki KR. Hún lék á tvo varnarmenn KR-inga og skoraði svo með skoti í slá og inn.
Mörkin úr leiknum í lýsingu Guðmundar Benediktssonar má sjá hér fyrir neðan.