Í fyrstu sögðu rússnesk yfirvöld að slys hefði orðið við prófanir á eldflaugarhreyfli með fljótandi eldsneyti á æfingarsvæði hersins nærri borginni Severodvinsk í norðanverðu Rússlandi á fimmtudag fyrir viku. Síðar sagði kjarnorkustofnun Rússlands að sprenging hefði orðið í litlum kjarnaofni og að fimm vísindamenn hennar hefðu látið lífið. Yfirvöld bönnuðu skipaumferð um Dvinaflóa í Hvítahafi í mánuð vegna slyssins.
Loftsíur á Svanahöfða í Norður-Noregi við landamærin að Rússlandi tóku upp geislavirkt joð dagana eftir sprenginguna, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Slíkt er þó ekki óvanalegt á þeim slóðum. Geislavirkt joð finnst þar sex til átta sinnum á ári, yfirleitt frá óþekktum uppsprettum.
„Eins og stendur er ekki hægt að ákvarða hvort að greiningin á joði tengist slysinu í Arkhangelsk í síðustu viku. Geislavarnir halda áfram að taka sýni oftar og greina þau,“ segir í yfirlýsingu geislavarna Noregs.

Veðurstofa Rússlands sagði í vikunni að geislun við Severodvinsk hafi aukist allt að sextánfalt eftir sprenginguna. Geislunin náði þó ekki gildum sem væru hættuleg mönnum. TASS-fréttastofan rússneska segir að engu síður hafi heilbrigðisstarfsmenn sem önnuðust fórnarlömb slyssins verið sendir til Moskvu til læknisrannsóknar.
Grunur leikur á að sprengingin hafi orðið við tilraunir með nýja tegund kjarnaknúinnar stýriflaugar sem Vladímír Pútín Rússlandsforseti stærði sig af að gæti náð til allra heimshorna fyrr á þessu ári.