Útgerðarfélagið Brim hagnaðist um 10,7 milljónir evra á fyrri helmingi ársins eða sem nemur 1,5 milljörðum króna.
Er þetta töluvert meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra en þá nam hagnaðurinn sex milljónum evra eða um 830 milljónum króna á gengi dagsins í dag.
Í fréttatilkynningu Brims vegna afkomunnar á fyrri helmingi ársins kemur fram að rekstrartekjur félagsins hafi numið 110 milljónum evra eða um 15 milljörðum króna.
Þá var rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) 23,2 milljónir evra á fyrstu sex mánuðum ársins eða alls 3,2 milljarðar króna.
„Afkoman á fyrri hluta ársins bendir til þess að við séum á réttri leið. Með kaupunum á Ögurvík á síðasta ári fjárfestum við í auknum veiðiheimildum sem meðal annars skila sér nú í bættri afkomu félagsins,“ er haft eftir Guðmundi Kristjánssyni, forstjóra félagsins, í fréttatilkynningu sem sjá má í heild sinni hér.
Brim hagnaðist um 1,5 milljarða
