Erlent

Uppreisnarmenn reknir úr þingflokki Íhaldsflokksins

Kjartan Kjartansson skrifar
Það var ekki glatt yfir Johnson forsætisráðherra (f.m.) og félögum hans í Íhaldsflokknum á þingi í kvöld.
Það var ekki glatt yfir Johnson forsætisráðherra (f.m.) og félögum hans í Íhaldsflokknum á þingi í kvöld. Vísir/EPA
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, byrjaði í kvöld að tilkynna uppreisnarmönnum í Íhaldsflokki hans að þeir séu reknir úr þingflokknum. Uppreisnarmennirnir greiddu atkvæði gegn Johnson í þinginu í kvöld til að stöðva útgöngu úr Evrópusambandinu án samnings.

Tillagan sem breska þingið samþykkti með 27 atkvæða mun í kvöld gaf þverpólitískum hópi þingmanna dagskrárvald í þinginu. Á morgun ætlar hópurinn því að leggja fram frumvarp sem kæmi í veg fyrir að Johnson geti dregið Bretland úr Evrópusambandinu án samnings 31. október.

Tuttugu og einn þingmaður Íhaldsflokksins greiddi atkvæði með tillögunni í kvöld þrátt fyrir að Johnson hefði hótað þeim brottrekstri úr þingflokknum. Johnson virðist hafa staðið við stóru orðin því breskir fjölmiðlar hafa eftir heimildarmönnum sínum í kvöld að Mark Spencer, þingflokksformaður Íhaldsflokksins, hafi byrjað að hringja í uppreisnarmennina til að tilkynna þeim um brottreksturinn skömmu eftir að atkvæðagreiðslunni lauk.

Á meðal þeirra sem eru reknir úr þingflokknum eru Philip Hammond sem var fjármálaráðherra í ríkisstjórn Theresu May þar til í lok sumars og David Gauke, dómsmálaráðherrann í stjórn May. Nicholas Soames, fyrrverandi ráðherra Íhaldsflokksins og barnabarn Winstons Churchill, er einnig rekinn úr þingflokknum fyrir að greiða atkvæði með tillögunni. Soames, sem er 71 árs gamall, segist ætla að hætta sem þingmaður við næstu kosningar.

Johnson lagði fram frumvarp í kvöld um að boða til kosninga um miðjan október. Til þess þarf hann samþykki meirihluta þingmanna. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir flokk sinn aðeins munu fallast á kosningar verði frumvarp sem stöðvi útgöngu án samnings samþykkt.


Tengdar fréttir

Kom á óvart að ríkisstjórn Boris Johnson skyldi missa meirihluta sinn

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir það hafa komið á óvart að ríkisstjórn Íhaldsflokksins undir forystu Boris Johnson skyldi missa eins manns meirihluta sinn á þinginu í dag er Phillip Lee gekk til liðs við Frjálslynda demókrata.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×