Handbolti

Lena Margrét fór hamförum í sigri á FH

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lena Margrét skoraði 13 mörk gegn FH.
Lena Margrét skoraði 13 mörk gegn FH. fbl/ernir
Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði 13 mörk þegar Fram U bar sigurorð af FH, 22-30, í Kaplakrika í 1. umferð Grill 66 deildar kvenna í handbolta í kvöld.

Fram U var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13-15, og vann svo seinni hálfleikinn, 9-15, og leikinn með átta mörkum, 22-30.

Lena Margrét, sem var valin efnilegasti leikmaður Olís-deildar kvenna á síðasta tímabili, fór mikinn í kvöld og skoraði nær helming marka Fram U. Harpa María Friðgeirsdóttir skoraði fimm mörk og Daðey Ásta Hálfdánsdóttir fjögur.

Fanney Þóra Þórsdóttir skoraði átta mörk fyrir FH og Emilía Ósk Steinarsdóttir sex. Aðeins fimm leikmenn FH komust á blað í leiknum.

Fylkir gerði góða ferð í Grafarvoginn og vann fimm marka sigur á Fjölni, 19-24. Árbæingar voru sex mörkum yfir í hálfleik, 8-14.

Thelma Lind Victorsdóttir skoraði sex mörk fyrir Fylki og María Ósk Jónsdóttir og Tinna Karen Victorsdóttir fimm mörk hvor.

Hanna Hrund Sigurðardóttir og Victoria Þorkelsdóttir skoruðu báðar fimm mörk fyrir Fjölni.

Grótta vann fjögurra marka sigur á Stjörnunni U á Nesinu, 26-22. Stjörnukonur voru marki yfir í hálfleik, 12-13.

Nína Líf Gísladóttir skoraði sex mörk fyrir Gróttu og Guðrún Þorláksdóttir fjögur. Ellefu af tólf útileikmönnum Seltirninga komust á blað í leiknum.

Steinunn Guðjónsdóttir var markahæst Stjörnukvenna með sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×