Tvöfaldur lokaþáttur Pepsi Max-markanna verður í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport í kvöld. Auk þess verður þátturinn sýndur beint á Vísi.
Þátturinn hefst klukkan 19:15 og verður þriggja tíma langur. Í fyrri hluta þáttarins verður farið yfir lokaumferð Pepsi Max-deildar karla. Í seinni hluta þáttarins verður svo tímabilið gert upp með pompi og prakt.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Íslandsmeistara KR, kemur í heimsókn, ýmis verðlaun verða veitt, þjálfarar og leikmenn fá einkunnir og nóg verður af skemmtilegum uppgjörssyrpum. Seinni hluti innslags Loga Ólafssonar og Ólafs Þórs Chelbat um Íslendinga í atvinnumennsku verður einnig sýnt.
Þá verða Gullskór Adidas í karla- og kvennaflokki afhentir.
Lokaumferð Pepsi Max-deildar karla fer fram í dag og hefjast allir leikirnir klukkan 14:00. Hægt verður að fylgjast með þeim í öllum í beinni textalýsingu á Vísi.
Leikur FH og Grindavíkur verður sýndur beint á Stöð 2 Sport og leikur Stjörnunnar og ÍBV á Stöð 2 Sport 2. FH og Stjarnan berjast um 3. sæti deildarinnar sem gefur þátttökurétt í Evrópudeildinni.
Leikirnir í lokaumferð Pepsi Max-deildar karla:
FH - Grindavík
Stjarnan - ÍBV
Breiðablik - KR
Víkingur - ÍA
KA - Fylkir
Valur - HK
