Ekki þótti tilefni til þess að fara fram á gæsluvarðhald yfir karlmanni á þrítugsaldri sem grunaður er um að hafa farið inn í Austurbæjarskóla á miðjum skóladegi í upphafi þessa mánaðar, platað stúlku í fimmta bekk upp á aðra hæð skólans, þar sem hann þuklaði á henni og hafði uppi kynferðislega tilburði.
Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður á kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að hvorki hafi verið taldir rannsóknar- né almannahagsmunir fyrir hendi sem kölluðu á gæsluvarðhald yfir manninum.
Sá flúði af vettvangi eftir að stúlkan komst undan. Hann fannst nokkrum dögum síðar og kom í skýrslutöku hjá lögreglu. Að henni lokinni var honum sleppt úr haldi.
Ævar Pálmi segir rannsókn málsins svo gott sem lokið. Hann geti ekki svarað því hvort líklegt sé að ákært verði í málinu. Það fari sína leið hjá ákærusviði og á borð héraðssaksóknara verði ákært í málinu.
Fram hefur komið að atvikið hafi átt sér stað á háalofti skólans. Ævar Pálmi útskýrir að það hafi gerst í opnu rými á annarri hæð skólans.
Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar ætlar að ræða við alla skólastjóra í grunnskólum borgarinnar og skoða hvort að herða þurfi aðgangsstýringu í skólunum.
Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á ritstjorn(hja)visir.is. Fullum trúnaði er heitið.
Töldu ekki tilefni til gæsluvarðhalds yfir manninum í Austurbæjarskóla

Tengdar fréttir

Ræða við alla skólastjóra borgarinnar um hvort herða þurfi aðgengi að skólum
Skóla- og frístundasvið ætlar að ræða við alla skólastjóra í grunnskólum borgarinnar og skoða hvort að herða þurfi aðgangsstýringu í skólunum. Karlmaður náði að lauma sér inn í Austurbæjarskóla í byrjun mánaðar þar sem hann braut kynferðislega á níu ára stúlku.

Braut á stúlku á lofti Austurbæjarskóla
Karlmaður er sagður hafa brotið gegn stúlkubarni í Austurbæjarskóla í upphafi mánaðar.