Umfjöllun og viðtöl: Fjölnir - Valur 21-30 | Valur hafði betur í botnslagnum

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/daníel
Valur vann sinn fyrsta leik, síðan í fyrstu umferð, er liðið lagði Fjölni að velli í Grafarvogi í kvöld. Eftir erfiða byrjun náði Valur öllum tökum á leiknum og vann að lokum öruggan 9 marka sigur, 21-30. 

Það voru heimamenn sem byrjuðu leikinn betur og leiddu fyrsta korterið. Þeir voru þá þremur mörkum yfir, 9-6. Lengra komust nýliðarnir ekki, Valur náði jafnt og þétt öllum tökum á leiknum. Eftir 1-9 kafla gestanna leiddu þeir með fimm mörkum, 10-15, en þeir leiddu með fjórum mörkum í hálfleik, 11-15. 

Það varð lítil breyting á leiknum í síðari hálfleik þar sem Valur sigldi lignan sjó. Heimamenn komust ekki nær en fimm mörk en tíu mörk skyldu liðin að þegar mest lét. Valur vann að lokum níu marka sigur og fögnuðu innilega langþráðum sigri. 

Af hverju vann Valur?  

Hreiðar Levy Guðmundsson á stóran þátt í því þegar Valsmenn komu til baka og unnu sig inní leikinn. Hann kom inn fyrir Daníel Frey Andrésson sem hafði ekki varið bolta í leiknum. Valur þétti einnig varnarleikinn og spiluðu virkilega góðan handbolta í 45 mínútur sem skilaði þeim þessum sigri. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hreiðar Levy Guðmundsson, varði 12 bolta með tæpa 50% markvörslu, hann var frábær í leiknum. Magnús Óli Magnússon var markahæstur í liði Vals með 6 mörk en Þorgils Jón Svölu Baldursson var magnaður í vörninni með 13 löglegar stöðvanir. 

Breki Dagsson var atkvæðamestur í liði Fjölnis, hann skoraði 8 mörk. 

Hvað gekk illa? 

Leikur Fjölnis hrundi eftir stundarfjórðung og eftir það gekk allt illa. Þeir skora eitt mark á síðasta korterinu og leikurinn þar með búinn. 

Aftur er Daníel Freyr Andrésson, markvörður Vals, ekki að finna sig. Hann var tekinn útaf eftir 15 mínútna leik eftir að hafa ekki varið bolta. 

Hvað er framundan? 

Í næstu umferð fá Valsmenn gott próf er þeir mæta ÍR. Fjölnismenn kíkja þá til Vestmannaeyja þar sem þeir mæta ÍBV.

 

Snorri Steinn mætti brosandi í viðtal að þessu sinnivísir/daníel
Snorri Steinn: Ég reikna ekki með Róberti á næstu vikum 

„Mér líður töluvert betur núna heldur en eftir síðustu leiki“ sagði glaðlegur þjálfari Vals, Snorri Steinn Guðjónsson 

„Það er ekkert leyndarmál að byrjunin var okkur mjög erfið. Þetta er búið að vera þungt og erfitt“

„Síðustu tvær vikur hafa verið mjög góðar hjá okkur. Mér fannst þetta rökrétt spilamennska í dag miðað við hvernig drengirnir hafa verið og brugðist við þessu mótlæti. Það var samt spenna í mönnum eins og við sáum það í byrjun leiks, við vorum ólíkir sjálfum okkur“ sagði Snorri Steinn eftir slaka byrjun á leiknum í dag, en hafði þó engar verulegar áhyggjur þó 

„það voru nú bara 10 mínútur búnar svo ég var ekki alveg kominn í panikkið, ég hefði samt þegið betri byrjun“

Valur hefur ekki unnið leik síðan þeir unnu Fram í fyrstu umferðinni. Snorri segir að staðan hafi lítið sem ekkert breyst eftir sigurinn í dag, þeir séu enn að ströggla og þurfi nauðsynlega að sigrum að halda

„Eina meðalið til að ná sér aftur á strik er að vinna leiki og við þurfum að gera meira af því. Staðan á okkur breyttist ekkert svakalega mikið, við þurfum ennþá á sigrum að halda. Eins og staðan er núna er bara hollt fyrir okkur að horfa ekki fram í tímann, taka bara leik fyrir leik, það er nóg framundan hjá okkur bæði í deild og Evrópu“ 

Róbert Aron Hostert meiddist snemma leiks, hann virtist þá hafa farið úr lið á þumalputta, á hægri hendi. Snorri segir að staðan á honum sé ekki góð og að hann reikni ekki með honum á næstunni

„Það var mjög gott stand á liðinu fyrir leik í dag en staðan er ekki góð á Róberti, ég reikna ekki með honum í næstu leiki né á næstu vikum“ sagði Snorri Steinn að lokum

 

Kári Garðarsson þjálfari Fjölnisvísir/vilhelm
Kári: Við þurfum að eiga algjöran lúxus dag til að vinna lið eins og Val

„Þetta var þungt í dag“ sagði Kári Garðarsson, þjálfari Fjölnis

„Við vorum í miklu basli sóknarlega í 45 mínútur. Við skorum ekki á löngum kafla í fyrri hálfleik og þurftum að hafa mikið fyrir hverju marki. Svo erum við að fá of mikið af hraðaupphlaupum á okkur, sérstaklega þegar þeir búa til sitt forskot í fyrri hálfleik“ 

„Við þurfum að eiga algjöran lúxus dag til að vinna lið eins og Val, við náðum því miður ekki þannig frammistöðu í dag“ sagði Kári 

„Hreiðar kemur inn og fer að verja bolta og þeir fóru að þétta varnarleikinn sinn. Við förum að skila boltanum illa frá okkur þarna í fyrri hálfleik og svo er seinni hálfleikurinn bara framhald af því“ sagði Kári sem bætir því við að þeir séu farnir að sakna Hafsteins Óla 

„Sóknarleikurinn okkar er mjög stirður þegar Hafsteinn Óli er ekki með, við erum ekki með örvhentann leikmann úti hægra meginn“ 

„Það var alveg búist við því að við færum ekkert í gegnum þennan vetur án þess að gera mistök og það er alveg ljóst að þau voru til staðar í dag, svo þetta fór eins og það fór.“ sagði Kári að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira