Umfjöllun og viðtöl: ÍR - ÍBV 32-27 | Björgvin og Sigurður magnaðir í sigri ÍR-inga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Björgvin var markahæstur á vellinum með ellefu mörk.
Björgvin var markahæstur á vellinum með ellefu mörk. vísir/bára
ÍR vann fimm marka sigur á ÍBV, 32-27, þegar liðin mættust í Austurberginu í Olís-deild karla í dag. Fyrir leikinn höfðu ÍR-ingar tapað þremur leikjum í röð og sigurinn var því kærkominn. Eyjamenn hafa hins vegar aðeins fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum sínum.

Björgvin Þór Hólmgeirsson og Sigurður Ingiberg Ólafsson báru af í liði ÍR. Björgvin skoraði ellefu mörk, þar af átta í seinni hálfleik, og Sigurður varði 19 skot (41%).

Eyjamenn byrjuðu leikinn betur og komust í 3-6. Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR-inga, tók þá leikhlé, hætti að spila með aukamann í sókninni og það svínvirkaði.

Sóknarleikur ÍR batnaði, þeir nýttu færin sín betur og keyrðu oftar í bakið á ÍBV. Eyjamenn voru seinir til baka og fengu á sig sex mörk eftir hraðaupphlaup í fyrri hálfleik.

Besti maður hans var Sigurður en hann varði tólf skot (48%), þar af fjögur frá Kristjáni Erni Kristjánssyni.

Eftir góða byrjun fór að halla undan fæti í Eyjasókninni og leikmenn liðsins tóku ítrekað slæmar ákvarðanir.

ÍR-ingar náði frumkvæðinu og forystunni og var leiddi með tveimur mörkum í hálfleik, 15-13.

Breiðhyltingar voru sterkari aðilinn í seinni hálfleik og voru alltaf með frumkvæðið ef frá er talinn nokkurra mínútna kafli þar sem Kristján Örn fann loks leiðina framhjá Sigurði og skoraði fjögur mörk í röð.

Kristján Örn jafnaði í 22-22 en ÍR svaraði með 4-1 kafla og náðu aftur yfirhöndinni.

ÍR-ingar spiluðu vel úr sínum spilum á lokakaflanum og sigur þeirra var ekki í hættu. Lokatölur 32-27, ÍR í vil.

Af hverju vann ÍR?

Fyrir utan fyrstu tíu mínúturnar var ÍR með góð tök á leiknum. Heimamenn réðu vel við 5-1 vörn gestanna og komu sér oftast í góð færi.

Fannar Þór Friðgeirsson og Theodór Sigurbjörnsson voru fjarri góðu gamni hjá ÍBV og mikið mæddi á Kristjáni Erni í sókninni. Hann skaut og skaut og skoraði átta mörk en Sigurður reyndist honum erfiður.

Eftir fjögur mörk Kristjáns í röð um miðbik seinni hálfleiks herti ÍR aftur tökin og landaði góðum sigri.

Hverjir stóðu upp úr?

Björgvin stýrði sóknarleik ÍR af festu og tók hvað eftir annað af skarið í seinni hálfleik. Sigurður var frábær í markinu og Sturla Ásgeirsson var öruggur á vítalínunni.

Kristján Örn var markahæstur Eyjamanna og Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk, öll úr hraðaupphlaupum. Petar Jokanovic átti ágætan leik í markinu en réði lítið við skotin frá Björgvini.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍBV var frekar einhæfur og fjölbreyttari ógn vantaði. Í fjarveru Fannars mæddi meira á Degi Arnarssyni en hann náði sér engan veginn á strik. Hákon Daði Styrmisson var rólegur og Kári Kristján Kristjánsson nýtti færin sín illa.

Hvað gerist næst?

Bæði lið eiga leik á laugardaginn. ÍBV fær botnlið HK í heimsókn á meðan ÍR sækir Aftureldingu heim.

Bjarni hrósaði sínum mönnum eftir leikinn.vísir/bára
Bjarni: Munaði litlu að við hefðum tekið Donna úr umferð

„Ég er svakalega ánægður með strákana. Þetta var ekki auðveldur leikur. Við lentum í basli með markvörðinn þeirra [Petar Jokanovic] í byrjun leiks og það hefði alveg getað dregið úr okkar tennurnar. En ég er ánægður með sjálfstraustið og hugrekkið í liðinu,“ sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, eftir sigurinn á ÍBV í dag.

„Þeir náðu smá forskoti í byrjun en mér fannst það bara út af því að hann varði nokkur dauðafæri. Við héldum áfram og svo duttu mörkin inn.“

Bjarni kvaðst sáttur með vörn Breiðhyltinga í leiknum.

„Við höfum lagt mikla áherslu á varnarleikinn upp á síðkastið. Við erum að ná vopnum okkar í vörninni aftur. Hún var mjög góð gegn Val í síðustu umferð og í dag,“ sagði Bjarni.

Kristján Örn Kristjánsson var allt í öllu í sóknarleik ÍBV og skoraði átta mörk. Hann þurfti hins vegar 19 skot til þess að skora mörkin átta og Sigurður Ingiberg Ólafsson var með hann í vasanum á löngum köflum.

„Þegar þú spilar á móti svona frábærri skyttu eins og Donna mun stökkva upp lengst fyrir utan og þruma boltanum skeytin og skora mörk. Þetta snýst um að halda hinum niðri og þvinga hann í erfið skot. Það litlu að við hefðum tekið hann úr umferð í seinni hálfleik,“ sagði Bjarni.

Hann segist aldrei hafa verið í rónni, þótt ÍR-ingar væru með þægilegt forskot undir lokin.

„Ég hafði áhyggjur allan leikinn. ÍBV er með eitt besta lið landsins. Ég bjóst við áhlaupi en við þurftum bara að gera það sem við vorum búnir að gera allan leikinn, halda áfram að keyra og halda pressunni á þeim. Mér fannst við leysa vörnina þeirra mjög vel á köflum,“ sagði Bjarni að lokum.

Eyjamenn hafa ekki unnið sigur í síðustu fimm leikjum sínum.vísir/bára
Kristinn: Höfum verið í brekku áður

Kristinn Guðmundsson, annar þjálfara ÍBV, sagði að Eyjamenn hefðu tekið of rangar ákvarðanir á kaflanum þegar ÍR-ingar náðu undirtökunum í fyrri hálfleik.

„Við fórum út úr skipulagi. Við tókum slæmar ákvarðanir og þetta voru hlutir sem við hefðum getað sleppt. Við tókum slæm skot úr erfiðum stöðum. Í hálfleik ræddum við um að laga það. Við gerðum það fyrri part seinni hálfleiks en það var ekki nóg,“ sagði Kristinn.

Um miðjan seinni hálfleik var staðan jöfn, 22-22. Þá skoraði ÍR fjögur mörk gegn einu og náði undirtökunum á ný.

„Varnarleikurinn var ekki nógu góður og við þjálfararnir hefðum kannski átt að grípa fyrr inn í og fá ÍR-ingana til að hugsa um eitthvað annað en 5-1 vörnina okkar,“ sagði Kristinn.

„Svo strönduðum við á Sigga í markinu. Hann var hrikalega góður í dag og varði of mikið frá okkur til að við gætum farið með sigur héðan. En það var margt jákvætt við sóknarleikinn okkar en að sama skapi kláruðum við ekki færin okkar.“

Björgvin Hólmgeirsson skoraði ellefu mörk í leiknum, þar af átta mörk í seinni hálfleik.

„Við hefðum átt að fara miklu fyrr á hann. Það gefur augaleið þegar við skoðum þetta núna en við verðum að læra af þessu. Við verðum að skoða hvar lekinn í vörninni var,“ sagði Kristinn.

Eftir að hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína í Olís-deildinni á tímabilinu er ÍBV án sigurs í síðustu fimm leikjum.

„Það er nóvember og við ætlum ekki að teikna upp svaka krísu. En við viljum vinna leiki og erum ósáttir við að fá á okkur 32 mörk. Við þurfum bara að halda áfram og bæta okkur. Við höfum verið í brekku áður og unnið okkur út úr því. Við megum ekki vera værukærir og við erum ákveðnir í að snúa bökum saman og laga það sem við getum lagað,“ sagði Kristinn að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira