Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan 26-26 Fram | Stjarnan henti frá sér unnum leik í Garðabænum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Úr Mýrinni í kvöld
Úr Mýrinni í kvöld vísir/bára
Leikurinn í Garðabænum var mjög lengi af stað en staðan var jöfn 1-1 fram á 8. mínútu leiksins. Brynjar Darri Baldursson hóf leikinn vel í marki Stjörnunnar og varði vel frá leikmönnum Fram sem reyndu misheppnaðar línusendingar í gríð og erg.

Eftir að staðan varð 2-1 fyrir Fram þá héldust liðin í hendur með markaskorun þangað til að heimamenn voru komnir 8-7 yfir á 20. mínútu. Þá fengu gestirnir úr Safamýri 2ja mínútna brottvísun fyrir að vera með of marga leikmenn inn á vellinum þegar þeir ætluðu í sókn en þeir höfðu fengið 2ja mínútnabrottvísun í sókninni áður.

Þeir voru því fimm gegn sjö næstu mínútur inn á vellinum. Það nýtti Stjarnan sér og komst í 10-7 áður en Guðmundi Helga Pálssyni, þjálfara Fram, var nóg boðið og tók leikhlé.

Það leikhlé skilaði tilætluðum árangri en Fram skoraði næstu fjögur mörk leiksins, Stefán Darri Þórsson minnkaði muninn í 10-9 með tveimur mörkum og Þorgrímur Smári Ólafsson kom Fram í 11-10 með næstu tveimur mörkum leiksins.

Stjarnan jafnaði svo metin áður en Valdimar Sigurðsson skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks og sá til þess að Fram var einu marki yfir þegar flautan gall, staðan þá 12-11. Markið var af dýrari gerðinni en Valdimar stökk þá á frákast, greip knöttinn með hægri - kom honum yfir í vinstri hendina og grýtti tuðrunni í netið, allt á meðan hann var í loftinu.

Bæði lið byrjuðu síðari hálfleik af krafti og skiptust á að skora. Um miðbik hálfleiksins virtust gestirnir úr Safamýri vera að byggja upp gott forskot þegar Valdimar Sigurðsson kom þeim í 19-17 en Stjarnan skoraði næstu tvö mörk og áfram hélt spennan. 

Þegar rúmar sjö mínútur lifðu leiks komust heimamenn í tveggja marka forystu og varð hún að þremur mörkum þegar þrjár mínútur voru eftir. Héldu margir að heimamenn væru að fara sigla stigunum tveimur heim þá.

Ótrúleg lokamínúta

Ragnar Njálsson fékk svo klaufalega 2ja mínútna brottvísun en Ari Magnús Þorgeirsson fékk fullkomið tækifæri til að klára leikinn þegar hann vann boltann og óð upp í hraðaupphlaup. Lárus Helgi Ólafsson, sem hafði átt fínan leik í marki Fram, sá hins vegar við honum.

Í kjölfarið minnkaði Valdimar muninn í tvö mörk og Andri Heimir Friðriksson skoraði svo þegar rúm hálf mínúta var til leiksloka en Stjarnan hafði þá tekið markmanninn sinn út af til að vera með jafn marga útileikmenn inn á. Þeir gerðu slíkt hið sama í síðustu sókn leiksins sem endaði með því að Fram vann boltann og Þorgrímur Smári Ólafsson náði skoti sem söng í netinu í þann mund sem tíminn rann út. 

Lokatölur 26-26 en maður er enn að klóra sér í höfðinu yfir þessum endi. Ótrúlegt að Stjarnan hafi ekki landað stigunum tveimur.

Af hverju varð jafntefli?

Af því Stjarnan getur ekki klárað leiki. Þá má deila um hvort ákvörðun Rúnars Sigtryggssonar, þjálfara Stjörnunnar, að taka markvörð sinn út af á svo mikilvægum tímapunkti hafi verið skynsöm eður ei.

Hverjir stóðu upp úr?

Leó Snær Pétursson og Tandri Konráðsson héldu sóknarleik heimamanna uppi og þá átti Brynjar Darri Baldursson mjög fínan leik í markinu en hann varði 12 skot.

Hjá gestunum var Þorgrímur Smári Ólafsson mjög öflugur en hann skoraði jöfnunarmarkið. Bróðir hans, Lárus Helgi Ólafsson, átti svo fínan leik í markinu og tryggði í raun Fram stig með markvörslu sinni undir lok leiks. Hann varði einnig 12 skot.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða hefur gengið betur og eins og Rúnar sagði í viðtali eftir leik þá var hálfgert stemmningsleysi að hrjá bæði lið sem og stuðningsmenn liðanna.

Hvað gerist næst?

Fram heimsækir Selfoss og Stjarna heimsækir FH.

Guðmundur Helgi Pálssonvísir/bára
Guðmundur Helgi: Var allt komið í rugl undir lokin

„Að sjálfsögðu, ég er mjög sáttur með þetta stig og það gæti verið mjög mikilvægt í restina. Varðandi leikinn þá var mikið af mistökum, aftur, en karakter í mínum mönnum að hætta ekki og klára leikinn,“ sagði Guðmundur, eðlilega nokkuð sáttur, að leik loknum.

Varðandi lokamínútu leiksins þá var Guðmundur ekki viss hvað honum fannst.

„Ég bara veit það ekki. Þetta var allt komið í rugl undir lokin og ég var ekki að taka eftir öllu þarna ef ég á að segja alveg eins og er. Þetta var klaufalegt fram og til baka þarna í restina en ég verð bara að skoða þetta á myndbandi áður en ég mynda mér skoðun á því.“

„Mér fannst þeir ná aðeins of auðveldum mörkum í seinni hálfleik en annars eru þetta bara tvö jöfn lið að berjast,“ sagði Guðmundur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira