Þetta sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar á Bítinu í morgun þar sem hann ræddi hina væntanlegu innkomu íslenska flugfélagsins Play á flugmarkað. Flugfélagið var kynnt til leiks í vikunni en ekki liggur fyrir hvenær jómfrúarflugið verður farið. Þá liggur leiðakerfið heldur ekki fyrir.
Á blaðamannafundi þar sem flugfélagið var kynnt kom hins vegar fram að félagið verði í fyrstu smátt í sniðum. Play muni alfarið halda sig við Airbus A320 vélar og verða þær tvær í fyrstu. Til að byrja með verði áfangastaðirnir sex í Evrópu, síðar verði leiðakerfið stækkað til Norður-Ameríku.
Bandaríkjamarkaður mikilvægur
Jóhannes Þór virðist vera jákvæður í garð hins nýja flugfélags.„Ísland byggir alla sína ferðaþjónustu á flugi, ég held að 99 prósent af farþegum sem hingað komi með flugi þess vegna skiptir sætaframboð okkur töluverðu máli og það sé almennt trú á þessum áfangastað. Þannig að það er bara mjög jákvætt,“ sagði Jóhannes Þór.
„Þannig að menn hafa lært af hinu og þessu þarna og það kom svolítið fram á þessum blaðamannafundi sem haldinn var að þarna ætlar flugfélagið að einskorða sig við eina flugvélatýpu til dæmis og ekki fara í eitthvað breiðþotuævintýri eins og Skúli Mogensen taldi hafa farið illa með WOW,“ sagði Jóhannes Þór.
Lýst honum vel á að stefnan sé sett á Bandaríkjamarkað, þar væri góður markaður fyrir íslenska ferðaþjónustu.
„Það skiptir okkur ferðaþjónustuna í heild sinni máli að það séu góðar tengingar við Bandaríkin. Það er augljóst að þetta nýja flugfélag ætlar að nýta sér samskonar kerfi og bæði Icelandair er að nýta sér og WOW nýtti sér á sínum tíma, að nota Keflavík sem skiptistöð og nýta staðsetningu Íslands sem flugmóðurskip í miðju Atlantshafinu til þess að fara til sitthvorrar heimsálfunnar. Það hefur sýnt sig að það er módel sem að virkar,“ sagði Jóhannes Þór.