Umfjöllun og viðtöl: FH - HK 29-27 | FH slapp fyrir horn gegn HK

Benedikt Grétarsson skrifar
Ásbjörn Friðriksson.
Ásbjörn Friðriksson. Vísir/Daníel
FH slapp með skrekinn gegn nýliðum HK þegar liðin mættust í 8.umferð Olísdeildar karla í handbolta í dag. Leikið var í Kaplakrika og FH vann torsóttan tveggja marka sigur 29-27. Staðan í hálfleik var 16-9.

HK byrjaði leikinn af fínum krafti og létu FH-inga finna vel fyrir sér í vörninni. Það skilaði tveimur góðum mörkum úr hraðupphlaupum og gestirnir komust í 1-2. Sú forysta dugði skammt, þar sem FH skoraði næstu fjögur mörk og breytti stöðunni í 5-2.

Heimamenn bættu jafnt og þétt við forystuna og komust mest átta mörkum yfir í stöðunni 13-5. HK náði fínum spretti og minnkaði muninn í fimm mörk en FH skoraði tvö síðustu mörk fyrri hálfleiks og hafði sjö marka forystu eftir 30 mínútna leik.

Seinni hálfleikur átti í raun að veraformsatriði. Það er mikill gæðamunur á þessum liðum og sjö marka forysta FH átti að klára dæmið. HK-ingar voru hins vegar ekki alveg sammála þessu og komu vægast sagt peppaðir til leiks eftir hálfleikinn.

HK fór í 7 gegn 6 í sókninni og FH átti einfaldlega engin svör við þessu herbragði. Hægt og bítandi átu gestirnir upp forskotið og minnkuðu muninn í eitt mark þegar um níu mínútur voru eftir.

Reynsla og gæði FH-liðsins fóru að koma betur í ljós á lokakaflanum, þegar leikmenn sem ekki voru búnir að vera áberandi, stigu upp á ögurstundu. Einn þeirra, Einar Rafn Eiðsson skoraði mjög mikilvægt mark tveimur mínútum fyrir leikslok og kom FH þremur mörkum yfir en tvö næstu nörk tilheyrðu HK og allt á suðupunkti í Krikanum.

Bjarni Ófeigur Valdimarsson er með fintu í sínu vopnabúri sem hann notar töluvert og varnarmenn ættu að vera byrjaðir að þekkja. Engu að síður bauð Bjarni upp á þessa fallegu fintu í lokasókn FH og það skilaði góðu marki sem reyndist tryggja FH sigur í leik sem var vægast sagt kaflaskiptur.

Af hverju vann FH leikinn?

FH náði sjö marka forskoti eftir 30 mínutna leik og það dugði á endanum til sigurs. HK eyddi miklu púðri í að éta niður þetta forskot og hafði svo ekki alveg nógu mikið bensín til að klára dæmið til fulls. HK átti stig skilið í Kaplakrika í kvöld.

Hverjir stóðu upp úr?

Línumenn HK, Eiríkur Guðni Þórarinsson og Kristján Ottó Hjálmsson voru mjög góðir, bæði í vörn og sókn. Garðar Svansson var seigur allan leikinn og Pétur Árni Hauksson steig upp í seinni hálfleik eftir skelfilegan fyrri hálfleik.

Bjarni Ófeigur var heilt yfir, bestur hjá FH og Birgir skoraði grimmt í fyrri hálfleik. Phil Döhler varði vel framan af leiknum og datt aftur í gang á mikilvægum augnablikum undir lok leiks.

Hvað gekk illa?

HK-ingum gekk illa að passa boltann sóknarlega í fyrri hálfleik og enduðu með 12 tapaða bolta í leiknum. Pétur Árni tapaði sex boltum í fyrri hálfleik en var mjög góður í þeim seinni. FH gekk nákvæmlega ekkert að ráða við HK í sjö gegn sex sóknarleik gestanna.

Hvað gerist næst?

Kaplakrikadrengir fara norður yfir heiðar og mæta KA en HK tekur á móti sterku liði Vals í Kórnum.

Elías Már er þjálfari HKvísir/daníel
Elías Már: Vissum að veturinn yrði erfiður

„Við spiluðum ekki nægilega vel í fyrri hálfleik en töluðum bara vel saman í hálfleik. Við höfum verið að vinna í alls konar málum undanfarið og mér fannst strákarnir standa sig frábærlega í seinni hálfleik. Við gerðum þetta að leik og áttum alveg eins skilið að vinna leikinn úr því sem komið var en því miður þá eru bara mikil gæði í þessu FH-liði og engine skömm að tapa fyrir þeim í hörkuleik,“ sagði Elías Már Halldórsson þjálfari HK eftir 29-27 tap gegn FH í áttundu umferð Olísdeildar karla.

Staðan í hálfleik var 17-10 og útlitið svart. Þá breyttu HK-ingar sókninni í sjö gegn sex og FH réð lítið við það herbragð.

„Já já, við erum allir að reyna að vinna í þessu saman og finna lausnir til að eiga möguleika í þessum leikjum. Við vissum alveg að þetta yrði erfiður vetur en við erum samt, að mínu mati búnir að sýna mjög flotta kafla í deildinni. Ein leiðin er að spila sjö gegn sex en okkur vantar okkar helstu skyttur vegna meiðsla. Þar með vantar okkur menn til að þruma utan af velli og þá er hægt að fara þá leið að þrýsta vörninni niður og það gekk mjög vel í dag. Því miður dugði það ekki til.“

Umræðan um HK hefur ekki beint verið jákvæð í vetur og margir búnir að spá liðinu falli. Er þessi umræða eitthvað að pirra Elías og strákana í liðinu?

„Nei, engan veginn. Eins og ég sagði áðan, þá vissum við að þetta yrði mjög erfiður vetur. Vonandi eru nýjir tímar að koma í HK og við erum bara að reyna að vinna í þeim strákum sem við höfum í liðinu og búa til alvöru kúltur í klúbbnum. Við erum ekkert að pæla í því hvort að við föllum eða ekki. Markmiðið er að bæta leik liðsins og nota þá stráka sem eru í liðinu. Það er mikið eftir af mótinu og við erum ekkert að pæla mikið í því hvort að við föllum eða ekki,“ sagði Elías Már að lokum.

Sigursteinn var óhress með sína menn í dagvísir/vilhelm
Sigursteinn: Hrós á HK

Sigursteinn Arndal, þjálfari FH var ekkert sérlega brosmildur eftir sigurinn gegn HK og viðurkenndi að það væri ýmislegt í leik FH sem ekki væri að gleðja hann.

„Ég er sáttur við stigin tvö og fyrstu 20 mínútur leiksins en ekki meira en það. FH er með of gott handboltalið til að spila eins og það gerði síðustu 40 mínútur þessa leiks. Ég get ekki verið sáttur við slíka frammistöðu,“ sagði Sigursteinn beint eftir leik.

HK bauð upp á aukamann í sókninni í seinni hálfleik og FH var í kjölfarið í miklu basli. Varla var slíkt herbragð að koma FH-ingum gjörsamlega í opna skjöldu?

„Nei nei og við erum samt að reyna ýmislegt. Það vantaði bara upp á ansi margt hjá okkur, bæði varnar- og sóknarlega í dag. Það þurfum við að skoða en ég vil líka nota tækifærið og hrósa HK-liðinu. Það var hjarta og sál í þeim, þeir mættu alveg á hundrað og það var vel gert hjá þeim.“

Var kannski að laumast örlítið vanmat í huga FH-inga við það að fara inn í hálfleikinn með sjö marka forskot?

„Við höfum bara verið bölvaðir klaufar og aular í vetur þegar kemur að því að hanga á stóru forskoti en þetta var a.m.k. sigur og það er jákvætt,“ sagði Sigursteinn og bætir við að FH þurfi að bæta sig fyrir næsta leik, sem er útilekur gegn KA.

„Já, við þurfum að spila meira en 20 góðar mínútur þar, það er ljóst,“ sagði Sigursteinn að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira