Handbolti

Gunnar: Ánægður með allt í kvöld

Þór Símon Hafþórsson skrifar
Haukarnir hans Gunnars eru með þriggja stiga forskot á toppi Olís-deildar karla.
Haukarnir hans Gunnars eru með þriggja stiga forskot á toppi Olís-deildar karla. vísir/bára
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, var ánægður í leikslok eftir öruggan 32-24 sigur á Fjölni í kvöld.

„Við mættum með rétt hugarfar og vorum klárir frá byrjun. Komumst í 6-0 og gáfum mjög lítið eftir í 60 mínútur,“ sagði Gunnar en Haukar gáfu aldrei eftir og héldu forystunni frá upphafi til enda. 

„Ég verð að hrósa drengjunum fyrir hugarfarið og fagmennskuna að halda standard allan leikinn og létum boltann rúlla vel. Bara ánægður með allt í kvöld.“

Gunnar leyfði yngri leikmönnum liðsins að spreyta sig en allir útileikmenn liðsins sem voru á skýrslu í kvöld skoruðu a.m.k. eitt mark.

„Það var frábært að fá mark frá öllum og sumir að skora sitt fyrsta mark í Olís-deildinni. Það er mikilvægt að geta gefið þeim tækifæri en þeir þurfa líka að standa sig og þeir gerðu það,“ sagði Gunnar. 

Adam Haukur Baumruk skoraði átta mörk í kvöld en í síðustu umferð var það Tjörvi Þorgeirsson sem var í aðalhlutverki í markaskorun liðsins.

„Við erum með mjög sterka liðsheild. Strákarnir taka sín færi þegar þau gefast. Núna var það Adam Haukur sem var að fá færin en það geta allir stigið upp.“

En er ekki erfitt að halda taplausu liði eftir 10 umferðir á jörðinni?

„Það er alltaf smá áskorun. Það geta öll lið náð syrpum. Áskoruninn er að halda þetta lengi út og klára þetta fyrir jól. Þó svo að við séum að vinna einhverja leiki núna þá erum við ekkert að fara fram úr okkur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×