Innlent

Eva Joly segir að dómstólar þurfi að taka mál Samherja til sín

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Hópur lögmanna undir stjórn Evu Joly,sérfræðings í rannsóknum fjámálaglæpa, hefur tekið að sér mál Jóhannesar Stefánssonar sem kom fram í fréttaskýringaþættinum í Kveik í gær og sagði frá viðskipaháttum Samherja í Afríku.

Hún svaraði spurningum fréttastofu í dag og sagðist einnig vinna með Baro Alto lögmannsstofunni í París. Hópurinn hefði unnið að málinu í nokkra mánuði og væri vanur að verja uppljóstrara.

Þá kom fram að spilling í sjávarútvegi væri vel þekkt og hefði m.a. komið fram í rannsóknum Sameinuðu þjóðanna. Hún sé afar skaðleg öllu þróunarstarfi. Þetta sé þó einstakt tilvik þar sem svo miklar upplýsingar hafi komið fram frá innanbúðarmanni Samherja. Það sé í höndum dómstóla hér á landi, í Namibíu, Angóla og Noregi að leggja mat á viðskiptahætti Samherja.

Loks kemur fram að hún hafi sem þingmaður stutt Antoine Deltour þegar hann var uppljóstrari í máli Luxleaks. Þá hafi hún unnið að nýrri löggjöf sem verji uppljóstrara.

Reynslan hafi kennt sér að það sé mikilvægt fyrir uppljóstrara að vera tilbúna undir árásir sem komi alltaf í kjölfar þess að þeir segja frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×