Um síðustu helgi gerði KA góða ferð til Reykjavíkur og vann Fram, 25-27. Í gær unnu KA-menn svo FH-inga, 31-27. Það var fyrsti heimasigur KA á tímabilinu.
Kasumovic er öflug skytta og var næstmarkahæsti leikmaður Olís-deildarinnar á síðasta tímabili.
Hann er hins vegar með eindæmum hornablindur og einn besti ungi hornamaður deildarinnar, Dagur Gautason, fékk boltann ekki tímunum saman þegar Bosníumaðurinn var inni á vellinum. Í sjö leikjum á þessu tímabili átti Kasumovic einungis tvær stoðsendingar á Dag, samkvæmt HBStatz, þrátt fyrir að spila við hlið hans vinstra megin á vellinum.
Kasumovic var aðeins með 0,9 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur. Á síðasta tímabili var hann með eina stoðsendingu að meðaltali í leik.
Dagur blómstraði í leiknum gegn FH í gær og skoraði níu mörk úr tólf skotum. Hann hefur ekki skorað meira í leik í vetur. Mörkin hans má sjá hér fyrir neðan.
Patrekur Stefánsson var duglegur að finna Dag og átti fimm stoðsendingar á hann. Patrekur kom til KA frá Akureyri fyrir tímabilið og hefur leikið virkilega vel í gula og bláa búningnum. Patrekur er með 4,6 mörk og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur.
Dagur er markahæsti leikmaður KA á tímabilinu með 47 mörk, eða 5,2 mörk að meðaltali í leik.
KA er í 7. sæti deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn Val á Hlíðarenda á miðvikudaginn.