Íslendingarnir í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta þurftu flestir að sætta sig við tap í kvöld.
Það var Íslendingaslagur þegar Lemgo og Balingen-Weilstetten mættust. Lemgo hafði betur 27-24 eftir að hafa verið með þægilega 14-9 forystu í hálfleik.
Bjarki Már Elísson skoraði tvö marka Lemgo og Oddur Grétarsson gerði þrjú fyrir Balingen.
Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Erlangen töpuðu fyrir Kiel 27-31. Gísli Þorgeir Kristjánsson var ekki með Kiel.
Viggó Kristjánsson skoraði eitt mark fyrir Wetzlar sem tapaði fyrir Göppingen 26-21.
Bergischer tapaði fyrir toppliði Flensburg 29-23 og náði Arnór Þór Gunnarsson ekki að komast á blað en Ragnar Jóhannsson skoraði tvö mörk fyrir Bergischer.
