Innlent

Íslenskur veðmálaspilari sektaður um átta milljónir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Yfirskattanefnd komst að niðurstöðu sinni nú í nóvember.
Yfirskattanefnd komst að niðurstöðu sinni nú í nóvember. Getty Images/Dina Rudick
Yfirskattanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenskur veðmálaspilari og Kópavogsbúi þurfi að greiða íslenska ríkinu 5,1 milljón króna og 3,1 milljón króna til bæjarsjóðs Kópavogs fyrir skattsvik. Viðskiptablaðið greindi fyrst frá.

Skattrannsóknarstjóri hafði málið til rannsóknar en maðurinn var grunaður um að hafa vantalið tekjuskatt árið 2014, 2015 og 2016. Um var að ræða rúmar fjórar milljónir króna fyrsta árið, yfir sjö milljónir króna það næsta og tæplega tvær milljónir síðasta árið. Samanlagt 13,5 milljónir króna.

Var það niðurstaða skattrannsóknarstjóra að karlmaðurinn hefði vantalið tekjur vegna veðmála á erlendum veðmálasíðum og ekki gert grein fyrir erlendum bankareikningi á innsendum skattframtölum.

Sagðist telja tekjurnar skattfrjálsar

Maðurinn bar fyrir sig að hafa talið að tekjur hans af veðmálum væru gjaldfrjálsar. Hann viðurkenndi að hafa verið með erlendan bankareikning sem hefði verið notaður í tengslum við veðmál á netinu.

Hann sagðist ekki geta afhent yfirlit yfir reikninginn þar sem hann væri búinn „slaufa“ þessu öllu. Hann játaði að hafa verið með erlent greiðslukort sem hefði verið tengt umræddum bankareikningi og að tekjurnar sem hefðu komið inn á bankareikninginn hefðu verið ávinningur af fjárhættuspilum.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra kemur fram að maðurinn fékk 4,6 milljónir króna frá erlendu fyrirtæki inn á bankareikning sinn árið 2014 og 2015. Þá hefði hann tekið tæplega níu milljónir króna út með erlendu greiðslukorti á Íslandi á árunum 2014-2016.

Að undangengnum útreikningi um skiptingu greiðslu tekjuskatts til ríkisins og útsvars til sveitarfélags varð niðurstaðan að veðmálaspilarinn skildi greiða íslenska ríkinu 5,1 milljón króna og Kópavogsbæ 3,1 milljón króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×