Tottenham komst aftur á sigurbraut undir stjórn Jose Mourinho í ensku úrvalsdeildinni í dag þegar Lundúnarliðið fékk Burnley í heimsókn en Tottenham tapaði sínum fyrsta leik undir stjórn Portúgalans á Old Trafford í miðri viku.
Liðsmenn Mourinho voru staðráðnir í að svara tapinu gegn Man Utd á réttan hátt og strax eftir 10 mínútna leik var staðan orðin 2-0, Tottenham í vil. Son Heung-Min skoraði fallegasta mark leiksins þegar hann kom Tottenham svo í 3-0 eftir rúmlega hálftíma leik og úrslitin nánast ráðin.
Harry Kane bætti við öðru marki sínu snemma í síðari hálfleik og Moussa Sissoko rak síðasta naglann í kistu lánlausra Burnley manna stundarfjórðungi fyrir leikslok. Lokatölur 5-0 fyrir Tottenham.
Það var engan veginn sama fjörið í leik Watford og Crystal Palace sem fram fór á sama tíma en þeim leik lauk með markalausu jafntefli.
Markaveisla Mourinho hélt áfram gegn Burnley
