Forsvarsmenn lággjaldaflugfélagsins Play hafa ekki getað greitt starfsfólki sínu laun fyrir nóvembermánuð. Upplýsingafulltrúi Play segir starfsmenn sína stöðunni skilning og til standi að greiða laun hið fyrsta. Fjármögnun Play gangi vel.
DV greindi fyrst frá töfum á launagreiðslum. María Margrét Jóhannsdóttir, upplýsingafulltrúi Play, segir í samtali við Vísi að vonir hafi staðið til að geta greitt laun um mánaðamótin.
„Ljóst er að örlítil töf verður á launagreiðslum meðan verið er að ljúka við hlutafjársöfnunina,“ segir María Margrét.
„Allir starfsmenn eru upplýstir um þetta og eru reiðubúnir til þess að halda áfram störfum til þess að sjá flugfélagið verða að veruleika. Við vonumst til þess að geta lokið þessum málum sem fyrst. Ólíkt því sem fram hefur komið þá gengur lokafjármögnun PLAY vel.“
Fram kemur í Markaðnum í dag að stjórnendur og stofnendur Play hafi boðist til að minnka hlutdeild sína í félaginu í þrjátíu prósent á móti sjötíu prósent eignarhlut fjárfesta, sem hafa fengist til að leggja félaginu til um 1700 milljónir króna í nýtt hlutafé.
Play greindi frá því um síðustu helgi að ákveðið hefði verið að fresta sölu á fyrstu flugmiðum félagsins, sem ráðgert var að færu í sölu í síðasta mánuði.
Play gat ekki greitt laun um mánaðamótin

Tengdar fréttir

Bjóðast til að minnka hlut sinn í Play
Stjórnendur og stofnendur Play, hins nýstofnaða lággjaldaflugfélags, bjóðast til að minnka hlutdeild sína í félaginu í þrjátíu prósent á móti sjötíu prósent eignarhlut fjárfesta.

Play bjóði góð laun en ekkert skutl út á flugvöll
Play svarar ásökunum Alþýðusambandsins.

Play seinkar sölu á fyrstu flugmiðum
Ekki liggur fyrir hvenær sala flugmiða á að fara af stað.