Körfubolti

Sagði aldrei frá því þegar þjófar stálu af honum tveimur Ólympíugullum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Miðherjarnir Patrick Ewing og Hakeem Olajuwon voru teknir inn í Heiðurshöllina á sama tíma árið 2008.
Miðherjarnir Patrick Ewing og Hakeem Olajuwon voru teknir inn í Heiðurshöllina á sama tíma árið 2008. EPA/CJ GUNTHER

Það þurfti kórónuveiruna og fréttaleysi af íþróttum til að fá besta miðherjann í sögu New York Knicks til að segja frá óskemmtilegri lífsreynslu sinni.

NBA goðsögnin Patrick Ewing lenti í því fyrir nokkrum árum að innbrotsþjófar stálu frá honum þremur dýrmætum verðlaunagripum.

Patrick Ewing varð aldrei NBA-meistari þökk sé Michael Jordan og Hakeem Olajuwon en varð aftur á móti bæði háskólameistari og Ólympíumeistari.

Patrick Ewing sagði frá því í útvarpsviðtali í vikunni að innbrotsþjófar brutust inn á heimili hans í New York fyrir nokkrum árum. Ewing sagði ekki frá því á sínum tíma og vildi heldur ekki segja það í þessu nýja viðtali hvenær þetta var.

„Þeir brutust inn á heimili mitt í New York og stálu verðlaunapeningunum mínum,“ sagði Patrick Ewing í viðtalinu „The Dan Patrick Show.“

Ewing er nú þjálfari Georgetown í bandaríska háskólaboltanum en eitt af því sem var stolið var meistarahringur hans með Georgetown háskólanum árið 1984. Þjófarnir komust líka yfir Ólympíugullverðlaun hans frá 1984 og 1992.

Ewing er viss um að innbrotsþjófarnir hafi verið með það á hreinu hver átti heima þarna. „Stundum er ömurlegt að vera þekktur,“ sagði hinn 57 ára gamli Patrick Ewing.

Patrick Ewing fékk þó meistarahringinn sinn til baka þegar þjófarnir reyndu að selja hann á Ebay.

Ewing fékk samt aldrei upprunalegu gullpeninga sína til baka sem hann vann á ÓL í Los Angeles 1984 og á ÓL í Barcelona 1992. Jerry Colangelo hjá bandaríska landsliðinu reddaði sínum manni hins vegar tveimur eftirlíkingum af gullverðlaunum tveimur.

Patrick Ewing átti flottan NBA-feril þótt að hann hafi aldrei orðið NBA meistari. Hann var ellefu sinnum kosinn í stjörnuleikinn og var kosinn í fyrsta lið ársins 1990 auk þess að vera sex sinnum valinn í annað besta lið ársins (1988, 1989, 1991–1993, 1997).

Ewing var með 21,9 stig og 9,8 fráköst að meðaltali í 1183 deildarleikjum sínum í NBA en skoraði mest 28,6 stig í leik tímabilið 1989-90. Ewing skoaði 20,2 stig og tók 10,3 fráköst að meðaltali í 139 leikjum í úrslitakeppninni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×