Körfubolti

Brutust inn á reikninga Giannis og skildu eftir óviðeigandi skilaboð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giannis Antetokounmpo er aðalstjarna Milwaukee Bucks liðsins og ein stærsta stjarnan í NBA deildinni. Tölvuþrjótarnir fóru illa með Twitter-reikninginn hans í gær.
Giannis Antetokounmpo er aðalstjarna Milwaukee Bucks liðsins og ein stærsta stjarnan í NBA deildinni. Tölvuþrjótarnir fóru illa með Twitter-reikninginn hans í gær. Getty/Stacy Revere

Tölvuþrjótar náðu að brjótast inn á alla reikninga NBA leikmannsins Giannis Antetokounmpo í gær og þá skiptir það ekki máli hvort það var Twitter, síminn, tölvupóstur eða bankareikningur.

Kostas, yngri bróðir Giannis Antetokounmpo, staðfesti þetta við bandaríska miðla í gær en þeir sem lásu tíst Giannis fyrr um daginn var farið að gruna að eitthvað mikið væri að.

Giannis Antetokounmpo hafði sent frá sér mjög hrokafull eða dónalega skilaboð og oft til stærstu stjarna NBA-deildarinnar eins og sjá má hér fyrir ofan.

LeBron James, Stephen Curry, liðsfélagar og meira að segja Kobe Bryant fengu að kenna á því frá tölvuþrjótnum og þá tilkynnti hann líka, sem Giannis Antetokounmpo, að hann væri að fara til Golden State Warriors.

„Hann biðst innilegrar afsökunar á öllu því sem kom fram á Twitter síðu hans og ætlar að reyna að koma til baka eins fljótt og auðið er. Það sem hakkarnir skrifuðu var einstaklega óviðeigandi og ógeðslegt,“ sagði Kostas Antetokounmpo í yfirlýsingu.

Milwaukee Bucks sendi líka frá sér yfirlýsingu. „Það var brotist inn í alla samfélagsmiðla Giannis Antetokounmpo í dag og þeir voru teknir niður. Málið er í rannsókn,“ sagði í yfirlýsingu liðsins hans.

Giannis Antetokounmpo var kosinn besti leikmaður NBA deildarinnar í fyrra og er orðin ein stærsta stjarna körfuboltans í dag. Hann hélt áfram góðum leik í vetur og Milwaukee Bucks var með besta sigurhlutfallið af öllum liðum þegar leik var hætt vegna kórónuveirunnar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×