Bæjarráð Hveragerðisbæjar mótmælir harðlega þeirri ákvörðun Arion banka að loka útibúi bankans í bænum. Hætti bankinn ekki við lokunina muni Hveragerði endurskoða viðskipti sín.
Arion laumaði því að í tilkynningu sinni um breytta fyrirtækjaþjónustu, sem send var út á miðvikudag og Vísir greindi frá, að bankinn hyggðist sameina útibú sitt í Hveragerði við útibúið á Selfossi. Samkvæmt upplýsingum frá Arion mun þessu ekki fylgja uppsagnir eða aðrar breytingar á starfsemi bankans á Suðurlandi.
Sjá einnig: Arion lokar útibúinu í Hveragerði
Bæjarráð Hveragerðisbæjar sá tilefni til að bóka sérstaklega um útibúslokunina á fundi sínum í gær. Í bókuninni segir að „fjölmargir“ hafi reitt sig á þjónustu útibúsins í bæjarfélaginu. „Hveragerðisbær er ört vaxandi bæjarfélag þar sem gríðarlegur fjöldi ferðamanna á viðdvöl. Hér er einnig fjölmennt dvalarheimili og mikill fjöldi eldra fólks býr í bænum en þessi hópur hefur sérstaklega treyst á þjónustu bankans og á ekki hægt um vik með að sækja þjónustu í önnur bæjarfélög,“ segir í bókuninni.
Hveragerðisbær hafi átt viðskipti við bankann frá stofnun hans og sérstaklega tekið fram að höfuðsstöðvar Búnaðarbankans á Suðurlandi hafi verið í Hveragerði.
„Dragi Arion banki ekki til baka áætlanir sínar um lokun hér í Hveragerði mun bæjarstjórn endurskoða viðskipti sín við bankann,“ segir í lok bókunarinnar sem má nálgast hér.