Innlent

Þolandi árásarinnar vaknaður og kominn til Húsavíkur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá Kópaskeri.
Frá Kópaskeri. Vísir/vilhelm

Maðurinn sem varð fyrir hnífsstunguárás á Kópaskeri aðfaranótt laugardags hefur verið útskrifaður af gjörgæsludeild á Akureyri og fluttur á sjúkrahús á Húsavík. Lögregla vonast til þess að geta rætt við hann í dag. Grunaður árásarmaður liggur enn meðvitundarlaus á gjörgæslu.

Sjá einnig: Hefur sjálfur tvisvar verið dæmdur fyrir hnífstungur

Þrennt var handtekið eftir að tilkynnt var um árásina. Tveimur þeirra, manni og konu, var sleppt úr haldi á laugardag þar sem ekki er talið að þau tengist árásinni. Samkvæmt heimildum Vísis var þolandi árásarinnar stunginn sex sinnum. 

Bergur Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Norðurlandi eystra, segir í samtali við Vísi að þolandinn sé kominn af gjörgæsludeild sjúkrahússins á Akureyri. Hann var fluttur á sjúkrahúsið á Húsavík í gær og reynt verður að taka af honum skýrslu í dag.

„Ef hann man eitthvað, maður veit aldrei hvernig það er,“ segir Bergur.

Sjá einnig: Stóð til að reyna að vekja hinn grunaða í dag

Grunaður árásarmaður fannst rænulítill í fangaklefa sínum morguninn eftir árásina og var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri. „Hann er enn á sjúkrahúsi og ekki vakandi,“ segir Bergur.

Greint var frá því í byrjun vikunnar að lögregluvörður hefði verið settur á vakt á gjörgæsludeild sjúkrahússins á Akureyri. Bergur segir að því hafi verið aflétt í gær þegar þolandi árásarinnar var fluttur til Húsavíkur.

Lögregla hefur rætt hefur við vitni sem á heima í íbúðinni þar sem árásin var gerð. Bergur segir að lögregla leiti enn vitna en ekki hafi farið fram fleiri formlegar skýrslutökur. Á litlum vitnisburði sé að byggja í málinu en rannsóknargögn úr vettvangsrannsókn tæknideildar skili vonandi einhverju.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×