Forsíða aprílútgáfu Vogue Italia er fábrotin.VOgue italia
Nýjasta tölublað ítalska Vogue er með öðru sniði en alla jafna. Forsíðan, sem skartar iðulega fyrirsætu og stuttri kynningu á efni tímaritsins, er algjörlega auð að frátöldum titli blaðsins.
Ítalía hefur orðið einna verst úti vegna kórónuveirunnar, sérstaklega norðurhluti landsins þar sem þungamiðju þarlenda tískuiðnaðarins er að finna. Ritstjóri Vogue Italia segir ekki hægt að líta hjá þeirra staðreynd að faraldurinn hafi ekki aðeins sett allan iðnaðinn úr skorðum heldur jafnframt haft geigvænlegar afleiðingar fyrir daglegt líf í landinu.
„Að tala um eitthvað annað - á meðan fólk lætur lífið, læknar og hjúkrunarfræðingar hætta lífi sínu og jörðin breytist til frambúðar - það er ekki í anda Vogue Italia,“skrifar Emanuele Farneti, ritstjóri blaðsins.
Hann segist hafa sett sér þrjú markmið fyrir útgáfu apríltölublaðsins: Að ímynda sér heiminn eftir faraldurinn, að safna saman hópi listafólks og fá þau til að teikna upp mynd af nýjum veruleika og að prenta fyrstu hvítu forsíðuna í sögu blaðsins.
Ritstjórinn segir að hvíti liturinn sé til marks um bjarta framtíð. Heilbrigðisstarfsfólk í fremstu víglínu baráttunnar klæðist jafnframt hvítu auk þess sem hvíti liturinn minni á auðan striga sem nýta megi til frekari sköpunar.
„En fyrst og fremst er hvítur ekki til marks um uppgjöf. Þvert á móti táknar hann tómt blað sem bíður eftir að skrifað sé á sig, titilsíða nýrrar sögu sem er í þann mund að hefjast.“