Keflavík fékk góð meðmæli þegar Dominykas Milka fór að spyrjast fyrir um félagið á síðasta ári. Eftir að hafa leikið frábærlega með liðinu í Domino‘s-deildinni í vetur ákvað þessi öflugi körfuboltamaður að vera áfram í Keflavík á næstu leiktíð.
Milka heimsótti þá Kjartan Atla Kjartansson og Henry Birgi Gunnarsson í Sportinu í dag og útskýrði meðal annars þá ákvörðun sína að gera nýjan samning við Keflavík. Innslagið má sjá hér að neðan.
„Það höfðu nokkur lið í Evrópu samband við mig en fyrir mér þá er keppnistímabilinu í raun ekki lokið. Við þurftum að hætta skyndilega, eftir að við í Keflavík höfðum staðið okkur mjög vel í vetur og gert vel með því að komast í þá stöðu sem við ætluðum okkur, að geta unnið Íslandsmeistaratitilinn. En úr því að það þurfti að slíta mótinu vegna kórónuveirunnar, og við Deane [Williams] töluðum um að við vildum klára það sem við byrjuðum á, þá ákváðum við að skrifa strax undir samning svo við gætum byrjað snemma að undirbúa okkur,“ sagði Milka.
Milka kom til Keflavíkur eftir að hafa meðal annars rætt við Steven D‘agustino, sem var hjá Keflavík fyrri hluta leiktíðarinnar 2011-2012 og stóð sig vel, Michael Craion og fleiri um það hvernig liðið væri og fólkið í Reykjanesbæ. Hann segir það ekki skipta sig máli hvaða tölum hann nái sjálfur á næstu leiktíð, í stigum og fráköstum, svo lengi sem Keflvíkingar landi þeim stóra. Það sé markmiðið. Hann tók flest fráköst allra í Domino's-deildinni í vetur eða 12,1 að meðaltali í leik, og skoraði 20,9 stig.
Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.