Handbolti

Magnús Stefánsson frá Fagraskógi leggur handboltaskóna á hilluna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Magnús Stefánsson hefur skilað frábæru starfi í ÍBV búninginum og þá sérstaklega í varnarleiknum.
Magnús Stefánsson hefur skilað frábæru starfi í ÍBV búninginum og þá sérstaklega í varnarleiknum. Vísir/Bára

Magnús Stefánsson hefur spilað sinn síðasta handboltaleik á ferlinum en ÍBV segir frá því á fésbókarsíðu sinni í dag að hann hafi tekið þá ákvörðun að leggja skóna á hilluna.

Magnús er fæddur árið 1984 og hélt upp á 36 ára afmælið sitt í apríl. Magnús byrjaði feril sinn fyrir norðan með KA en lék síðar með Fram. Hann kom síðan til Vestmannaeyja árið 2011.

„Árið 2011 fluttum þau hjúin, Magnús og Ester okkar Óskarsdóttir svo til Eyja og skrifaði Magnús undir samning hjá Bandalaginu. Magnús er hvers manns hugljúfi og náði mjög fljótt að stimpla sig vel inn í Eyjasamfélagið og ÍBV-fjölskylduna,“ segir í fréttinni um Magnús á fésbókarsíðu ÍBV.

Magnús Stefánsson varð tvisvar Íslandsmeistari með ÍBV og þrisvar bikarmeistari þar af nú síðasta á nýloknu tímabili.

Ásamt því að leika handknattleik hefur Magnús verið mjög virkur í félagsstarfi ÍBV og verið þjálfari hjá yngri flokkum. Magnús lék 203 deildarleiki fyrir ÍBV og skoraði í þeim 318 mörk en svo lék hann einnig 12 leiki í Evrópukeppni og skoraði í þeim 13 mörk.

„Við erum þakklát fyrir að hafa fengið Magga á sínum til Eyja og allt það sem hann hefur fært klúbbnum á þessum árum. Við þökkum Magnúsi kærlega fyrir tímann á parketinu, munum sakna þess að sjá hann ekki þar en hann verður alltaf partur af klúbbnum og mun starfa áfram með okkur!,“ segir í fréttinni um Magnús á fésbókarsíðu ÍBV.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×