Viðskipti erlent

LEGO bað aug­lýs­endur um að fjar­lægja markaðs­efni með löggu­þema

Sylvía Hall skrifar
LEGO lýsti yfir samstöðu með Black Lives Matter hreyfingunni á samfélagsmiðlum.
LEGO lýsti yfir samstöðu með Black Lives Matter hreyfingunni á samfélagsmiðlum. Vísir/GEtty

Leikfangaframleiðandinn LEGO hefur ákveðið að styrkja Black Lives Matter hreyfinguna um fjórar milljónir Bandaríkjadala, sem samsvarar rúmlega hálfum milljarði íslenskra króna. Þá sendi fyrirtækið tölvupóst á markaðsaðila þar sem þeir voru beðnir um að fjarlægja allar auglýsingar frá fyrirtækinu sem sýndi varning með lögregluþema.

Í tölvupósti sem ToyBook hefur undir höndum og var sendur frá LEGO var beðið um að slíkt markaðsefni yrði fjarlægt í ljósi ástandsins vestanhafs. Í tölvupóstinum var að finna langan lista yfir varning sem fyrirtækið vildi ekki láta auglýsa, til að mynda varning tengdan lögreglunni og slökkviliðsmönnum.

„Í ljósi nýskeðra atburða vill LEGO biðja um að neðangreindar vörur verði fjarlægðar af síðum og af markaðsefni eins fljótt og auðið er,“ stóð í tölvupóstinum.

Í svari LEGO til miðilsins segist fyrirtækið hafa beðið auglýsendur um að birta ekkert markaðsefni tengd fyrirtækinu til þess að sýna #BlackOutTuesday samstöðu, en herferðin vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum í fyrradag. Þetta hafi því átt við um allt efni frá fyrirtækinu, þó listinn taldi aðeins upp fyrrnefndan varning.

„Við hörmum allan misskilning og munum sjá til þess að við séum skýrari með ætlun okkar í framtíðinni.“

Fyrirtækið birti yfirlýsingu á Twitter-síðu sinni í gær það sem það sagðist standa með svörtu fólki og þeirra baráttu gegn rasisma og óréttlæti. Enn væri langt í land og því gaf fyrirtækið fjórar milljónir Bandaríkjadala til hreyfingarinnar.

„Við munum gefa fjórar milljónir til samtaka sem stuðla að því að styðja við svört börn og fræða öll börn um jafnrétti allra kynþátta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×