Fótbolti

Matthías skoraði af vítapunktinum og Hólmbert á skotskónum í fimm marka tapi

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Tvær stoðsendingar frá Viðari Ara í dag.
Tvær stoðsendingar frá Viðari Ara í dag. vísir/getty

Sex íslenskir knattspyrnumenn voru í eldlínunni í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag og áttu misjöfnu gengi að fagna.

Matthías Vilhjálmsson tryggði sínu liði, Valerenga, eitt stig gegn Stabæk þegar hann jafnaði metin í 2-2 með marki úr vítaspyrnu á 73.mínútu en Valerenga lék manni færri frá því snemma í síðari hálfleik þegar Herolind Shala fékk að líta rauða spjaldið.

Viðar Ari Jónsson var mikilvægur liði Sandefjord sem gerði einnig 2-2 jafntefli þegar liðið fékk Start í heimsókn. Viðar Ari lagði upp bæði mörk Sandefjord en Emil Pálsson lék allan leikinn fyrir Sandefjord. Guðmundur Andri Tryggvason var ekki í leikmannahópi Start en hann er að stíga upp úr meiðslum.

Þrír Íslendingar voru í byrjunarliði Álasund sem heimsótti Kristiansund þar sem úr varð algjör markasúpa. Á 37.mínútu leiksins var Hólmbert Aron Friðjónsson á skotskónum þegar hann minnkaði muninn í 3-2.

Heimamenn í Kristiansund héldu áfram að fara á kostum í síðari hálfleik og unnu að lokum fimm marka sigur, 7-2. Davíð Kristján Ólafsson og Daníel Leó Grétarsson voru í byrjunarliði Álasund ásamt Hólmberti. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×