Innlent

Ragn­heiður sagði upp vegna sam­starfs­örðug­leika

Sylvía Hall skrifar
Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. Reykjavíkurborg

Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur sagt upp sem verkefnastjóri Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í Reykjavík sem fer fram í desember á þessu ári. Hún segir ástæðuna vera samstarfsörðugleika við Örnu Schram, formann stjórnarinnar.

Frá þessu greinir Ragnheiður á Facebook-síðu sinni þar sem hún vísar í frétt Fréttablaðsins um málið. Hún segir samstarfið við samstarfsaðila verkefnisins hafa verið gott en kýs að tjá sig ekki frekar um starfslokin.

„Ég hef átt frábært samstarf við alla þá fjölmörgu samstarfsaðila þessa skemmtilega verkefnis og við starfsfólk EFA í Berlín og geng stolt frá því verki sem ég hef lagt metnað minn í. Nú verður það hins vegar annarra að ljúka því og óska ég þeim öllum velfarnaðar og þess að EFA 2020 verði hin glæsilegasta og okkur öllum sem að henni hafa komið til sóma,“ skrifar Ragnheiður.

Ragnheiður, sem er fyrrum iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var ráðin verkefnastjóri í júlí á síðasta ári en alls sóttu 45 um starfið. Helstu verkefni hennar voru að vinna að undirbúningi hátíðarinnar í samráði við stjórn verkefnisins og Evrópsku kvikmyndaakademíuna.

Ekki náðist í Örnu Schram við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×