Fjögur apótek á höfuðborgarsvæðinu voru sektuð í upphafi árs fyrir ófullnægjandi verðmerkingar. Úttekt Neytendastofu leiddi í ljós að verðmerkingar voru í ólestri í alls 44 apótekum af þeim 49 skoðuð voru, en fyrrnefndu apótekin fjögur voru þau einu sem réðust ekki í fullnægjandi úrbætur.
Starfsmenn Neytendastofu litu fyrst við í apótekunum í desember í fyrra. Ætlunin var að ganga úr skugga um að verðmerkingar þeirra væru í lagi, en fyrirtækjum ber að verðmerkja vöru með réttu söluverði þar sem hún er höfð til sýnis neytendum.
Skoðun starfsmanna Neytendastofu leiddi í ljós að ástand verðmerkinga var ábótavant í nær öllum apótekum sem skoðuð voru. Forsvarsmönnum þeirra var gert viðvart í byrjun febrúar og þeim tjáð að fyrirtækið mætti búast við sektum ef verðmerkingum væri ekki komið í rétt horf.
Fjörutíu apótek af þeim 44 sem fengu viðvörun réðust í fullnægjandi úrbætur að mati Neytendastofu. Fjögur apótek; Rima Apótek, Farmasía, Íslandsapótek og Lyfja á Smáratorgi, gerðu það hins vegar ekki. Þeim var gefin fjórtán daga frestur í lok apríl til að gera hreint fyrir sínum dyrum - en engin svör bárust Neytendastofu.
Stofnunin tók því ákvörðun um að leggja stjórnvaldssekt á apótekin. Hverju og einu þeirra var gert að greiða 50 þúsund krónur í ríkissjóð og hafa þau tæpa þrjá mánuði til að standa skil á greiðslunni.