Breiðablik hefur byrjað Íslandsmótið frábærlega. Tveggja vikna sóttkví – eftir að mótið var farið af stað – virðist ekki hafa nein áhrif á liðið. Eftir sjö umferðir er liðið á toppi deildarinnar með fullt hús stiga. Þá hefur liðið skorað 28 mörk og á enn eftir að fá á sig mark.
Sonný Lára Þráinsdóttir – markvörður og fyrirliði Breiðabliks – hefur staðið á milli stanganna líkt og undanfarin ár. Hún hefur aldrei byrjað tímabil betur en Blikaliðið á þó enn töluvert í land með því að jafna eigið met en liðið hélt hreinu 12 deildarleiki í röð sumarið 2015.
Blikar fengu aðeins á sig fjögur mörk það sumarið og ef fer sem horfir gæti Sonný bætt eigið met. Það er ef Íslandsmótið fer aftur af stað, KSÍ frestað öllum leikjum til 5. ágúst á meðan Íþrótta- og Ólympíusamband vill fresta öllum æfingum og keppni sem krefjast snertinga til 13. ágúst hið minnsta.
Síðan Sonný Lára gekk í raðir Breiðabliks árið 2014 þá hefur hún spilað alls 114 deildarleiki fyrir félagið. Af þeim hefur hún leikið 67 leiki án þess að fá á sig mark. Hefur hún aðeins fengið á sig 64 mörk í þessum 114 leikjum.
Þá er tölfræðin í raun enn lygilegri ef hún er miðuð við komu Þorsteins Halldórssonar í Kópavogsins. Síðan Þorsteinn tók við sem þjálfari Breiðabliks hefur Sonný leikið 97 deildarleiki. Í þeim hefur Sonný spilað 60 leiki án þess að fá á sig mark. Hefur hún aðeins fengið á sig 48 mörk í leikjunum.

Það verður forvitnilegt að sjá hvort Blikar bæti eigið met en sem stendur eru allar líkur á því.
*Fréttin hefur verið uppfærð.*