Íslenski boltinn

KSÍ frestar öllum leikjum til 7. ágúst eftir fund með Almannavörnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Vals og Þór/KA í Pepsi Max kvenna í sumar.
Frá leik Vals og Þór/KA í Pepsi Max kvenna í sumar. Vísir/Vilhelm

Fulltrúar Knattspyrnusambands Íslands hafa lokið fundi sínum með fulltrúum Almannavarna um málefni knattspyrnuhreyfingarinnar en sagt er frá niðurstöðu fundarins á heimasíðu sambandsins.

Umræðuefni fundarins var sú staða sem nú er uppi í samfélaginu vegna Covid-19 en framtíð Íslandsmótsins hefur verið í uppnám eftir að önnur bylgja hófst af kórónuveirufaraldrinum hér á landi.

Knattspyrnusamband Íslands hafði frestað öllum leikjum til 5. ágúst en sóttvarnarlæknir hafði lagt til að hlé verði á æfingum og keppni í íþróttum með snertingu til 13. ágúst næstkomandi.

Meðal umræðuefnis á fundi KSÍ með Almannavörnum í dag voru því æfingar og keppnisleikir fullorðinna jafnt sem yngri iðkenda.

Stjórn KSÍ kom saman í kjölfarið og samþykkti að fresta leikjum í meistara- og 2. og 3. flokki karla og kvenna frá 5. ágúst til og með 7. ágúst. Það bætast því aðeins tveir dagar við eftir fundinn í dag en búast má við að málið verði í endurskoðun alla þessa viku.

Í fréttinni á heimasíðu KSÍ kemur einnig fram að von sér á minnisblaði frá almannavörnum og sóttvarnarlækni í dag, þriðjudag, og eru vonir bundnar við að minnisblaðið svari flestum spurningum KSÍ og knattspyrnuhreyfingarinnar um mótahald og æfingar.

Í kjölfar minnisblaðsins mun KSÍ skoða leiðir til lausna í samráði við sóttvarnaryfirvöld og ræddi stjórnin m.a. um að breyta tilmælum KSÍ um Covid varúðarráðstafanir (viðauki við handbók leikja) í bindandi ákvæði. Jafnframt var ítrekað að eins og staðan er nú eru æfingar knattspyrnuliða heimilar ef 2 metra nándarmörk eru virt og búnaðar sótthreinsaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×