Íslenski boltinn

Áskorun frá KSÍ: Allt samfélagið horfir til okkar og fylgist með

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslandsmótið í knattspyrnu hefst á ný í kvöld og Beitir Ólafsson og félagar í KR mæta þá FH.
Íslandsmótið í knattspyrnu hefst á ný í kvöld og Beitir Ólafsson og félagar í KR mæta þá FH. Vísir/Daníel Þór

Knattspyrnusamband Íslands fékk í gær formlega staðfestingu frá ÍSÍ og heilbrigðisyfirvöldum um það, að ný reglugerð KSÍ um framkvæmd æfinga og leikja, fylgi öllum kröfum um nauðsynlegar sóttvarnir.

KSÍ segir frá þessu á heimasíðu sinni en leikir á Íslandsmótinu í knattspyrnu geta því hafist að nýju samkvæmt fyrirliggjandi dagskrá sem birt hefur verið á vef KSÍ.

KSÍ tókst að fá grænt ljós frá heilbrigðisyfirvöldum eftir að sambandið útbjó mjög ítarlega og mun harðari sóttvarnarreglur en áður voru við lýði. Markmið reglnanna er að tryggja að umgjörð leikja og æfinga í knattspyrnu sé með þeim hætti að hægt sé að halda áfram að leika knattspyrnu á Íslandi þrátt fyrir að COVID-19 sé enn við lýði í íslensku samfélagi og útlit fyrir að svo kunni að verða áfram næstu misseri.

Öll félög þurfa meðal annars að fylla út sérstakt eyðublað em allra fyrst og senda til KSÍ á covid19@ksi.is. Einnig er þarna að finna gátlista fyrir sóttvarnarfulltrúa og reglugerð þá sem stjórn KSÍ staðfesti fyrr í dag.

„Töluverður fjöldi spurninga hefur borist KSÍ undanfarna daga. Meðal efnis hér á vefnum verða helstu spurningar og svör þar sem allar spurningarnar eru birtar ásamt svörum við þeim. Allir sem hafa spurningar ættu að leita fyrst að svörum hér á vefnum og ef spurningunni hefur ekki þegar verið svarað þá er um að gera að senda frekari fyrirspurnir til KSÍ á netfangið covid19@ksi.is,“ segir í fréttinni á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands.

Þar kemur einnig fram áskorun á alla sem lifa í íslenska knattspyrnuheiminum á tímum kórónuveirunnar.

„Allir hagsmunaaðilar; leikmenn, forráðamenn félaga, starfsmenn félaga og mannvirkja, dómarar, fjölmiðlar og allt áhugafólk um knattspyrnu, þurfa nú að snúa bökum saman og sýna að við erum traustsins verð,“ segir í áskorun KSÍ. Þar kemur líka fram að ábyrgðin er mikil hjá íslensku knattspyrnufjölskyldunni.

„Við skulum ekki efast um það eina einustu mínútu að samfélagið allt horfir til okkar og fylgist með því hvernig tekst til að framfylgja þessum reglum. Með sameiginlegu átaki allra hagsmunaaðila getum við tryggt að hægt sé að stunda knattspyrnu áfram þó að takmarkanir séu miklar,“ segir í fréttinni á KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×