Ef marka má stöðuuppfærslu Michelle Ballarin á LinkedIn er von á því að WOW air hefji flug á nýjan leik á næstu vikum.
„WOW air fer aftur í loftið innan nokkurra vikna,“ skrifar hún á LinkedIn síðu hennar í nótt að íslenskum tíma.
Fregnir af áhuga Ballarin á endurreisn WOW air komu fram í sumar. Þá kom meðal annars fram að hún hefði áætlanir um að gera Dulles flugvöll í Washington DC að höfuðstöðvum endurreists flugfélags.
Keypti hún eignir sem tilheyra vörumerkinu WOW air af þrotabúi hins fallna flugfélags. Áform eru uppi um að hefja flug á milli Dulles-flugvallar í Washington og Íslands. Í fyrstu var talað um að WOW air færi í loftið að nýju í október, en það hefur dregist á langinn.
„Við viljum gera flugið skemmtilegt á ný,“ skrifar Ballarin þar sem hún segir að flugfélagið muni tengja saman lönd og heimsálfur í flugneti sínu sem muni bera heitið WOW World.
„Við lofum ykkur öryggi, þægindum og sanngjörnu verði hvert sem þú ferð á okkar vegum,“ skrifar hún á LinkedIn en færslu hennar má sjá hér að neðan.
