Erlent

Kínverjar lýsa yfir stríði gegn plasti

Samúel Karl Ólason skrifar
Umhverfisráðuneyti Kína tilkynnti í gær að plastpokar verði bannaðir í stærstu borgum Kína á þessu ári og í öllum borgum og bæjum árið 2022.
Umhverfisráðuneyti Kína tilkynnti í gær að plastpokar verði bannaðir í stærstu borgum Kína á þessu ári og í öllum borgum og bæjum árið 2022. EPA/FAZRY ISMAIL

Yfirvöld Kína ætla í umfangsmiklar aðgerðir gegn einnota plasti á næstu árum. Gífurlegt magn plasts er grafið í jörðu í Kína eða endar í ám landsins en Sameinuðu þjóðirnar segja plast eina stærstu ógnina gegn umhverfi jarðarinnar.

Umhverfisráðuneyti Kína tilkynnti í gær að plastpokar verði bannaðir í stærstu borgum Kína á þessu ári og í öllum borgum og bæjum árið 2022. Verslanir sem selja ferskar afurðir munu ekki þurfa að banna notkun plastpoka fyrr en 2025.

Plastáhöld eins og gaflar og prjónar verða einnig bönnuð í áföngum á næstu árum. Plaststrá verða bönnuð á veitingahúsum á þessu ári og stendur til að draga verulega úr notkun plasts í veitingageiranum á næstu árum.

Samkvæmt frétt Reuters hafa yfirvöld Kína einnig bannað allan innflutning plastrusls auk þess að grípa til annarra aðgerða.

Þá er verið að byggja fjölda endurvinnslustöðva í Kína og eru yfirvöld þar í landi í umfangsmiklu átaka til að draga úr sóun og mengun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×