Erlent

Wuhan-veiran breiðist út um allt meginland Kína

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Þetta fólk er bæði með grímur og hlífðargleraugu þar sem það ferðast um í neðanjarðarlestarkerfi í nágrenni Beijing.
Þetta fólk er bæði með grímur og hlífðargleraugu þar sem það ferðast um í neðanjarðarlestarkerfi í nágrenni Beijing. vísir/epa

Tala látinna vegna hinnar svokölluðu Wuhan-veiru heldur áfram að hækka og stendur nú í 170 manns. Þá hefur veiran nú breiðst út um allt meginland Kína eftir að stjórnvöld staðfestu að eitt tilfelli hefði komið upp í Tíbet.

Kínversk stjórnvöld segja að alls séu 7711 staðfest smit. Veiran, sem er ný tegund kórónaveiru og ber formlega heitið 2019-nCoV, á uppruna sinn í kínversku borginni Wuhan þaðan sem hún hefur breiðst út til allra héraða landsins og sextán annarra landa, svo staðfest sé.

Þá mun Alþjóðaheilbrigðisstofnunin funda í dag til þess að ræða hvort lýsa þurfi yfir neyðarástandi vegna veirunnar.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, segir framgöngu veirunnar undanfarna daga, og þá sérstaklega í nokkrum löndum og með tilliti til smita á milli manna, vera áhyggjuefni.

Á blaðamannafundi í gær nefndi hann sérstaklega smit í Þýskalandi, Víetnam og Japan.

„Þrátt fyrir að fjöldi smitaðra utan Kína sé enn tiltölulega lítill, er möguleiki á stærri faraldri til staðar,“ sagði Ghebreyesus.

Ekki er til nein lækning eða bóluefni fyrir veiruna en margir þeirra sem smitast fá aðeins væg einkenni og ná sér að fullu.

Veiran getur þó einnig valdið mjög skæðri lungnabólgu og dauða. Er veiran talin sérstaklega hættuleg eldra fólki og fólki með undirliggjandi sjúkdóma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×