Umferðin á höfuðborgarsvæðinu í morgunsárið er ekki það eina sem gengið hefur hægt í morgun. Nokkrar tafir hafa verið á brottförum frá Keflavíkurflugvelli í morgun. Þar snjóaði töluvert í nótt og hafa farþegar þurft að bíða eftir því að flugvélarnar séu afísaðar.
Eins og sjá má á vef Isavia hefur verið töf á öllum ferðum Icelandair frá Keflavíkurflugvelli í morgun, mismikil þó. Þannig voru fyrstu ferðir Icelandair í morgun nokkrum mínútum á eftir áætlun en biðin hefur lengst eftir því sem liðið hefur á morguninn. Þannig lagði Kaupmannahafnarvél Icelandair af stað einum og hálfum tíma á eftir áætlun og það sama má segja um Glasgow-vélina og Osló-vélina.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu mátti rekja tafirnar til þess að afísa þurfti allar vélarnar og var einfaldlega gengið á röðina en um 15 til 20 mínútur tekur að afísa hverja vél.
Farþegar um borð í vél Icelandair þurfti að bíða lengst eftir afísingu eða í rúmlega tvo tíma. Áætluð brottför var klukkan átta í morgun en vélin lagði af stað klukkan 10.07.
Átti að fara í loftið til Manchester 08.00 en þetta grín land með allan sinn snjó búið að halda okkur úti á braut í einn og hálfan. Á viðtal við Gylfa 13.20 á æfingasvæði Everton. Það er alls ekkert víst að þetta klikki. Eða kannski allar líkur. Vantar ykkur eitthvað í duty free?
— Tómas Þór Þórðarson (@tomthordarson) February 27, 2020