Körfubolti

Valur með átta stiga forskot á toppnum | Snæfell vann í Kópavogi

Sindri Sverrisson skrifar
Helena Sverrisdóttir og stöllur í Val eru á góðri leið með að verða deildarmeistarar líkt og í fyrra.
Helena Sverrisdóttir og stöllur í Val eru á góðri leið með að verða deildarmeistarar líkt og í fyrra. Vísir/Bára

Íslandsmeistarar Vals unnu risasigur á botnliði Grindavíkur, 118-55, í Dominos-deild kvenna í körfubolta í dag. Snæfell vann 99-71 gegn Breiðabliki í Kópavogi.

Baráttan á milli Breiðabliks og Grindavíkur um að forðast fall heldur því áfram. Breiðablik er með 6 stig en Grindavík 4 þegar sex umferðir eru eftir, en liðin mætast í Grindavík í lokaumferðinni.

Valskonur eru nú komnar með átta stiga forskot á toppi deildarinnar og aðeins tímaspursmál hvenær þær tryggja sér deildarmeistaratitilinn annað árið í röð. Dagbjört Dögg Karlsdóttir var þeirra stigahæst í dag með 24 stig, 7 fráköst og 5 stoðsendingar, og Helena Sverrisdóttir skoraði 20 stig, tók 8 fráköst og gaf 9 stoðsendingar, en alls voru sex leikmenn Vals með að minnsta kosti 13 stig hver í leiknum. Tania Pierre-Marie skoraði 18 stig fyrir Grindavík.

Snæfell var tveimur stigum undir, 24-22, eftir fyrsta leikhluta gegn Breiðabliki en náði forystunni fyrir hálfleik, 43-38. Munurinn var ekki mikill á liðunum fyrr en á lokamínútunum þegar gestirnir úr Stykkishólmi stungu endanlega af.

Amarah Coleman skoraði 30 stig fyrir Snæfell og Emese Vida skoraði 14 auk þess að taka 13 fráköst. Hjá Blikum var Danni Williams langstigahæst með 38 stig og hún tók 9 fráköst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×