Fótbolti

Nýi Daninn í Barcelona réð lítið við boltann á kynningu sinni á Nývangi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Braithwaite að leika sér með boltann þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður Barcelona.
Martin Braithwaite að leika sér með boltann þegar hann var kynntur sem nýr leikmaður Barcelona. Getty/Pedro Salado

Martin Braithwaite var ekki nógu góður fyrir Middlesbrough en hann er orðinn leikmaður spænska stórliðsins Barcelona í dag. Það kemur mörgum á óvart.

Það eru nefnilega margir hissa á því að sjá þennan leikmann skipta skyndilega úr Leganés í Barcelona og hann verður nú við hlið Lionel Messi í framlínu Börsunga fram á vor.



Barcelona missti bæði Luis Suárez og Ousmane Dembélé í langvarandi meiðsli og fékk sérstakt leyfi spænsku deildarinnar til að kaupa upp samning Martin Braithwaite hjá Leganés.

Eins og venjan er hjá stóru liðunum á Spáni, Barcelona og Real Madrid, þá eru nýir leikmenn liðsins kynntir með viðhöfn.

Það efast eflaust margir um að Martin Braithwaite sé nógu góður til að spila við hlið Messi og þeim efasemdaröddum hefur væntanlega fjölgað eftir að fólk sá frammistöðu Danans fyrir framan ljósmyndarana á Nývangi í gær eins og sjá má hér fyrir neðan.



Martin Braithwaite átti að leika sér aðeins með boltann fyrir framan myndavélarnar en það er óhætt að segja að það hafi ekki gengið neitt sérstaklega vel hjá honum.

Martin Braithwaite missti boltann ítrekað frá sér og úr varð frekar vandræðalegt myndband fyrir leikmann sem á að skora mörkin fyrir Barcelona á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×