Erlent

Flóð ógna 1.200 ára styttu af Búdda

Samúel Karl Ólason skrifar
Þetta er í fyrsta sinn frá 1949 sem áin flæðir yfir tær Búdda.
Þetta er í fyrsta sinn frá 1949 sem áin flæðir yfir tær Búdda. EPA/LI XINFENG

Fleiri en hundrað þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín vegna umfangsmikilla og langvarandi flóða í Kína. Flóðin, sem eru í Yangtze ánni, ógna einnig 1.200 ára gamalli styttu af Búdda, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Tilraunir til að verja styttuna með sandpokum gengu ekki eftir og þurfti að koma um 180 ferðamönnum á vettvangi til bjargar.

Þetta er í fyrsta sinn sem áin flæðir yfir tær styttunnar frá árinu 1949, samkvæmt frétt BBC.

Mikil rigning síðustu vikurnar hefur leitt til þessara flóða og er búist við því að Three Gorges stíflan í Kína, sem var meðal annars hönnuð til að sporna gegn flóðum í Yangtze, muni sjá metvatnsflæði í dag. Samkvæmt South China Morning Post er búist við að flæðið verði 74 þúsund rúmmetrar á sekúndu.

Vatnsstaða í lóni stíflunnar hefur verið tíu metrum hærra en ráðlagt hámark er í meira en mánuð. Því var flæði frá stíflunni aukið í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×