Fimm af sex leikjum kvöldsins í Lengjudeild karla er nú lokið. Topplið Keflavíkur vann stórsigur á Víking Ólafsvík, Vestri vann einkar óvæntan sigur á hinu toppliði deildarinnar.
Lærisveinar Guðjóns Þórðarsonar áttu aldrei viðreisnar von í Keflavík í kvöld. Leiknum lauk með 6-1 sigri heimamanna en staðan var orðin 3-0 eftir aðeins 25 mínútur þökk sé mörkum Ara Steins Guðmundssonar, Joey Gibbs og Kian Williams.
Í síðari hálfleik bættu Joey og Kian við sitt hvoru markinu og sem og Davíð Snær Jóhannsson undir lok leiks. Brynjar Vilhjálmsson skoraði fyrir gestina í uppbótartíma. Sárabótamark þar sem lokatölur voru 6-1 fyrir Keflavík.
Viktor Júlíusson tryggði Vestra óvæntan sigur á Leiknir Reykjavík en gestirnir hafa leikið frábærlega í sumar. Í uppbótartíma ætlaði allt að sjóða upp úr eins og sjá má í eftirfarandi myndbandi. Það virðist sem áhorfendabann sem er í gildi á öllum knattspyrnuleikjum Íslands sé ekki í gildi á Ísafirði.
Allt að sjóða upp úr.#VesLeik @hjorvarhaflida pic.twitter.com/01Y4PRIkJL
— Friðrik Heiðar Vignisson (@Frikkibeast) August 19, 2020
Sigur Vestra þýðir að ÍBV er komið upp í 2. sæti deildarinnar en Tómas Magnússon skoraði eina mark Eyjamanna er þeir lögðu Aftureldingu af velli í Vestmannaeyjum í kvöld, lokatölur 1-0.
Önnur úrslit
Fram 3-0 Magni Grenivík
Þór Akureyri 5-1 Leiknir Fáskrúðsfjörður
Þróttur Reykjavík 0-2 Grindavik [í hálfleik]