Körfubolti

LeBron James mun neita að spila ef áhorfendur fá ekki að mæta á NBA leiki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LeBron James og Rajon Rondo eftir leikinn á móti Clippers í nótt.
LeBron James og Rajon Rondo eftir leikinn á móti Clippers í nótt. Getty/ Harry How
Kórónuveiran er þegar farin að hafa mikil áhrif á íþróttaviðburði í Evrópu og Asíu en nú eru Bandaríkjamenn líka að skoða hvað þeir þurfa að gera í sínum málum.

Stórir mannfögnuðir auka mikið líkurnar á smiti og íþróttakappaleikir falla vissulega undir slíka viðburði. Kappleikir á Ítalíu og í Danmörku fóru fram án áhorfenda um helgina.

NBA deildin í körfubolta íhugar það að spila leikina án áhorfenda til að berjast gegn útbreiðslu kórónuveirunnar. Ein stærsta stjarna deildarinnar tekur það hins vegar ekki í mál.





LeBron James var spurður út í þann möguleika að leika fyrir luktum dyrum eftir leik Los Angeles Lakers á móti Milwaukee Bucks.

LeBron James hefur engan áhuga á að spila fyrir framan tóma stúku og tók ekki vel í þessa framtíðarsýn blaðamanna sem báru þennan möguleika undir hann.





„Ef ég mæti í íþróttahöllina og það eru engir stuðningsmenn mættir. Þá mun ég ekki spila,“ sagði LeBron James meðal annars.

LeBron James sagði líka að það sé hans starf að skemmta áhorfendum. Ef hann mætir í tíma höll þá myndi það taka mikið frá hans innri hvöt til að spila.

„Ég spila fyrir áhorfendurna. Ég spila fyrir liðsfélagana mína og ég spila fyrir stuðningsmennina. Um það snýst þetta. Ef ég mæti í íþróttahöllina og það eru engir stuðningsmenn þar þá mun ég ekki spila. Þeir geta gert það sem þeim sýnist,“ sagði LeBron James.

LeBron James átti tvo frábæra leiki um helgina og áhorfendur í sigrum Lakers á Milwaukee Bucks og Los Angeles Clippers fengu mikinn fyrir sinn snúð.

Í sigrinum á Milwaukee Bucks var LeBron James með 37 stig, 8 fráköst og 8 stoðsendingar en í sigrinum á Los Angeles Clippers var hann með 28 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×