Körfubolti

Bikarmeistararnir björguðu sér naumlega og héldu 3. sæti

Sindri Sverrisson skrifar
Skallagrímskonur eru í 3. sæti en í harðri baráttu um að halda því.
Skallagrímskonur eru í 3. sæti en í harðri baráttu um að halda því. Vísir/Daníel

Bikarmeistarar Skallagríms unnu með minnsta mun gegn Snæfelli í Borgarnesi í kvöld, 70-69, í Dominos-deild kvenna í körfubolta. Þrír leikir voru á dagskrá í kvöld.

Með sigrinum náði Skallagrímur að halda 3. sæti en liðið er jafnt Keflavík með 30 stig, eftir að Keflavík vann Breiðablik á útivelli í kvöld, 86-68. Haukar eru svo í 5. sæti með 28 stig eftir að hafa unnið botnlið Grindavíkur 77-66.

Skallagrímur var sjö stigum undir gegn Snæfelli þegar sex mínútur voru eftir af leiknum í kvöld, 64-57. Heimakonur skoruðu þá tíu stig í röð og fengu ekki á sig körfu í næstum fimm mínútur. Skallagrímur komst fjórum stigum yfir þegar 16 sekúndur voru eftir og þriggja stiga karfa Bjargar Guðrúnar Einarsdóttur dugði ekki Snæfelli til að knýja fram framlengingu.

Keira Robinson skoraði 32 stig fyrir Skallagrím og Emilie Hesseldal 19. Hjá Snæfelli var Emese Vida með 25 stig.

Daniela Wallen var stigahæst Keflavíkur í sigrinum gegn Blikum, með 19 stig, og Katla Rún Garðarsdóttir skoraði 13. Hjá Blikum var Danni Williams langstigahæst með 33 stig.

Haukar voru undir eftir fyrsta leikhluta gegn Grindavík en unnu að lokum sigur. Randi Brown skoraði 29 stig og Sigrún Björg Ólafsdóttir 20 en hjá Grindavík voru Tania Pierre-Marie og Jordan Reynolds stigahæstar með 17 stig hvor og Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði 16.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×